Svar við opnu bréfi

Hilda Jana Gísladóttir.
Hilda Jana Gísladóttir.

Sæll aftur Einar. 

Vegna fyrirspurnar þinnar um ástæðu dómsáttar við fyrrum framkvæmdastjóra Eyþings þá get ég sagt að starfslokaviðræður milli fyrrum framkvæmdastjóra og þáverandi stjórnar hófust í ágúst 2018. Þeim viðræðum var ekki lokið þegar ný stjórn tók við. Vilji beggja stjórna stóð til þess að semja um eðlileg starfslok. Reynt var til þrautar að ná samkomulagi en það náðist því miður ekki innan ásættanlegs tíma. 

Þar sem trúnaðarbrestur hafði orðið milli stjórnar og framkvæmdastjóra sá stjórn að lokum engan annan kost í stöðunni en að segja upp ráðningarsamningnum, sem ekki var létt ákvörðun en óumflýjanleg. Eins og áður hefur komið fram hefur nú náðst sátt í málinu og telst því að öllu leyti lokið. Þar sem um starfsmannamál er að ræða hefur stjórn ekki heimild til að tjá sig nánar um málið. Mér að vitanlega eru engin önnur sambærileg mál í farvatninu. 

Kær kveðja,

Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi

 


Athugasemdir

Nýjast