Stíga út fyrir þægindarammann

Öll erum við mismunandi. En hversu öðruvísi megum við vera í dag án þess að vera talin skrýtin? Eru allir skrýtnir? Ég hef velt fyrir mér hvað mér finnst vera skrýtið og gagnrýnt hugsanir mínar í ræmur. Hinsvegar tel ég að allir tengi við það að óttast það á einhverjum tímapunkti í lífi sínu að passa ekki inn í hópinn. Langar ekki alla til að líða vel í samfélaginu ?

Til þess að okkur líði vel, sama hvernig við lítum út, klæðum okkur eða högum okkur, þurfum við að mæta skilningi. Við þurfum að byrja á börnunum og sem fullorðin að sýna þeim gott fordæmi. Við þurfum að byrja heima, við þurfum að endurhugsa hugsanir okkar og forrita heilann upp á nýtt. Eins erfitt og það hljómar þá er þetta svo mikilvægt fyrir framtíðarsamfélagið. Því eins og sést er nútímasamfélagið sem við öll lifum í er á leiðinni í þá átt að allir mega vera hvernig sem þeir vilja en í dag vantar að þeir sem eru hvernig sem er séu velkomnir hvert sem er hvenær sem er. Höfum við eitthvað betra að gera en að passa að afkomendur okkar og nútími á eftir okkar nútíma verði betri en hann er? Við þurfum að passa hvað við segjum, við þurfum að passa hvernig við högum okkur. Því allt hefur áhrif. Sama hvar, hvenær og með hverjum. Ég hugsa stundum um myndaseríu sem ég sá á instagram sem á svolítið vel um okkur sem mannverur. Það var stelpa sem sagðist ekki vera eins og aðrar stelpur. Hún var allt öðruvísi og fannst hlutir sem stelpunum fannst skemmtilegir ekki skemmtilegir. En síðan kynntist hún “stelpunum” og þá voru þær einstakar á sinn hátt eins og hún og sumar þeirra höfðu sömu áhugamál og hún. Við erum ósjálfrátt búin að ákveða og gera ráð fyrir, oft, hvernig aðrir eru út frá staðalímyndum og það er allt í lagi, það er algengt.

En við þurfum að tileinka okkur réttinn til þess að hafa rangt fyrir okkur. Því það er allt í lagi líka, að hafa rangt fyrir sér. Við þurfum að efast okkur sjálf og gagnrýna okkar eigin hugsanir. Við megum segja eitthvað og hætta við eða gera eitthvað og sjá eftir þeim en við þurfum bara að leyfa okkur að hafa rangt fyrir okkur og vera óhrædd að segja það. Fyrir nokkrum árum eignaðist bróðir minn kærustu. Mér fannst svo skrýtið að stundum þegar við töluðum saman eða vorum ósammála um eitthvað þá kom hún stundum svona hálftíma seinna eða klukkutíma seinna til mín og fór að tala um málið og var þá búin að endurhugsa það og var jafnvel ósammála sjálfri sér.

Ég var furðu lostin og skildi ekkert í þessu. Ég hafði nær aldrei upplifað það að fólk viðurkenndi að það hefði rangt fyrir sér og sérstaklega ekki við þann aðila sem það sagði skoðanir sínar við. Eftir þetta fór ég að taka þetta upp og tók eftir því að fólki finnst þetta svolítið furðuleg hegðun. En alltaf er eitthvað fyrst. Ekki vera hrædd við að gera eitthvað öðruvísi. Þannig þróumst við og þannig ýtum við samfélaginu út úr þægindarammanum. Vitur maður sagði nefnilega einhverntímann við mig „comfortzone’ið ykkar er deadzone” og ég hef reynt að tileinka mér þetta síðan þá. Ég vona að þið farið aðeins að draga hlutina í efa og farið út fyrir þetta venjulega því þá sjáið þið allt annan heim.

En til að enda þetta þá hef ég ákveðið að skora á góða vinkonu mína og frábærann penna, Sæunni Emiliu Tómasdóttur.

Takk fyrir mig.

-Ásthildur Ómarsdóttir


Athugasemdir

Nýjast