Skortur á millifyrirsögnum

Inga Dagný Eydal.
Inga Dagný Eydal.

Okkur hjónunum kemur bara oftast mjög vel saman. Við deilum að jafnaði sömu gildum í lífinu og jafnvel þótt við séum tvö ein, dögum saman, um þessar mundir þá truflar það okkur ekki mikið. Annað okkar hefur lítið álit á Júróvision og þykir það ljóður á ráði viðkomandi innan heimilisins og hitt þolir ekki umfjöllun um keppnisíþróttir í fjölmiðlum og þykir það einnig dálítið plebbalegt.

Minn maður er þolinmóður og dagsfarsprúður og gerir sjaldnast tilraunir til að halda í við púðurkerlinguna sem hann er giftur enda væri það full mikið að hafa tvær slíkar innanhúss. Stundum verður þó skilningsbrestur á milli okkar, þó það nú væri en oftast skrifast það á tjáningarmáta frekar en grundvallaratriði. Þannig finnst mínum manni oft á tíðum að hann fái til umfjöllunar mál þar sem aðdragandinn átti sér stað í kollinum á mér og honum þvi oft eingöngu kynntur seinni hlutinn.

Hér er þetta kallað „skortur á millifyrirsögnum", sem er reyndar ekki frá okkur komið heldur frá vinafólki sem á við svipuð vandamál að stríða. Lífið er svolítið þannig líka um þessar mundir, það virðist ríkja algjör skortur á millifyrirsögnum. Það skella á okkur nýjar staðreyndir og nýr veruleiki og okkur er sannarlega ekki gefinn tími til undirbúnings. Veiruskrattinn er að snúa heimsmyndinni okkar á hvolf og virðist heldur vaxa ásmegin. Mér sýnist að við eigum þann einn kost í stöðunni að fara að dæmi mannsins míns þegar ég fer fullhratt yfir, hann andar djúpt og tekur æðruleysið á stöðuna.

Þannig er ekkert annað fyrir okkur núna að gera annað en að en reyna að halda í gleðina í hjartanu, þrauka myrkrið og bíða eftir nýrri dögun. Þá munum við nudda stírurnar úr augunum, fara í klippingu og halda dýrlegar veislur Millifyrirsagnir eru hvort eð er bara í fjölmiðlum en hvorki í samskiptum samlyndra hjóna eða í lífinu sjálfu.


Nýjast