Skiptir þessi fjórða iðnbylting einhverju máli fyrir mig?

Sigríður Huld Jónsdóttir.
Sigríður Huld Jónsdóttir.

Það eru líklega margir sem hugsa sem svo að þeir þurfi ekkert að vera að hugsa um þessa fjórðu iðnbyltingu sem stundum er talað um. Þetta sé eitthvað sem einhver annar þarf að hugsa um, sé eitthvað sem mun ekki hafa áhrif á mig eða mitt starf, bara einhverja aðra og önnur störf. En við getum ekki hugsað sem svo að þær samfélagsbreytingar sem eru þegar farnar að hafa áhrif á líf okkar, skipti hvert og eitt okkar ekki máli. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig við sem samfélag ætlum að undirbúa okkur undir þessar breytingar - og skipuleggja það hvernig menntakerfið þarf að undirbúa unga fólkið undir framtíðina. Það er ekki nýtt að menntakerfið undirbúi nemendur sína á hverjum tíma undir framtíðina en aldrei áður með þeim mikla hraða á samfélagslegum breytingum og nú.

Það er kannski klént að segja það að COVID hjálpar okkur í þessum breytingum en ég ætla samt að segja það. Nánast á einni helgi þurftu nemendur og kennarar á öllum skólastigum að breyta verklagi og nálgun í námi og kennslu með því að fara yfir í fjarnám. Við misjafnar aðstæður, þekkingu og hæfni í upplýsingatækni og kennslufræði fjarnáms, hafa skólakerfin tekið breytingum sem sumar hverjar munu festast í sessi eftir COVID. Það liggur fyrir öllum innan menntakerfisins að taka það sem virkar vel áfram inn í framtíðina en það þýðir alls ekki að kennarastarfið og skólastarf sé eitt af þeim störfum sem verða unnin af snjalltækjum framtíðarinnar eða gervigreind. Síður en svo. Breytt menntun snýr ekki bara að tækjum, tólum og tækni. Hún snýr líka að breyttum viðhorfum um nám og hæfni að loknu námi. Þar er mannlegi þátturinn mikilvægastur og störf kennara munu snúast mikið um að vinna með viðhorf og mennskuna í lífi einstaklinga og störfum framtíðarinnar. Hvernig og hvað ungt fólk lærir nú er með öðrum hætti en við flest sem erum innan skólanna sem stjórnendur og kennarar lærðum sjálf.

Sem betur fer hafa breytingar síðustu ára í Íslensku menntakerfi gert það að verkum að nám og kennsla fer fram með breyttu sniði en áður og nemendur eru metnir með fjölbreyttari hætti. Ef það eitthvað sem mun klárlega breytast í framtíðinni þá er það minni áhersla á þekkingarviðmið. Ungt fólk í dag er vant því að geta leitað sér upplýsinga á vefnum t.d. um ártöl, höfuðborgir, stærðfræðiformúlur og atburði í heimssögunni. Þau hafa aðgang að nær öllum upplýsingum góðum og slæmum sem þeim langar að afla sér. Það sem menntakerfi framtíðarinnar þarf að fela í sér eru ekki staðreyndir sem hægt er að fletta upp heldur hvernig meta skal þær upplýsingar sem til eru, hafa hæfni til að vinna með þær á faglegan hátt, geta metið aðstæður og fundið nýjar leiðir. Hefðbundna skólakerfið er á undanhaldi og við sem vinnum innan skólanna verðum að vinna skipulega að því að aðlaga skólakerfið að fjórðu iðnbyltingunni. Það gerum við með nýjum nálgunum í takt við þær kröfur sem atvinnulíf og samfélagið gerir. Við þurfum að varðveita menningu okkar og tungumál með snjalltækni sem skilur íslensku.

Við þurfum fólk sem færir okkur listsköpun hvort sem það er á striga, á hljóðfæri eða í gegnum snjalltæki. Við þurfum fólk sem vinnur með umhverfisvænum hætti að orkunýtingu þar sem tæknin er nýtt í það sem nú eru líkamlega erfið störf. Það þarf að gefa nemendum tækifæri til að prófa sig áfram með tæki og tól og gera þau forvitin um eðlisfræði og alheiminn. Þau þurfa að læra að vinna með skapandi hugsun að lausn verkefna í samvinnu við aðra. Þessar hugmyndir eru langt því frá að vera nýjar, það þarf hins vegar að setja þær á dagskrá með afgerandi hætti, virkja menntakerfið þannig að það undirbúi ungt fólk til að lifa og starfa í framtíðinni. Þar þurfum við að byrja á okkur sjálfum sem vinnum innan menntakerfisins, hjá foreldrum og þeim sem starfa á Alþingi og í sveitastjórnum. Fyrst á dagskrá er að breyta viðhorfum okkar sjálfra um menntun til framtíðar. Þessi fjórða iðnbylting kemur okkur öllum við og hún mun hafa áhrif á okkur öll.

Ég skora á Ragnheiði Jakobsdóttur framkvæmdastjóra Ferðaskrifstofu Akureyrar og athafnakonu hér í bæ til að taka við pennanum - sem líklega er að verða úrelt að segja því þessi grein var skrifuð án nokkurs penna.

P.s. hefði þessi grein verið skrifuð með penna þá hefði það tekið mig töluvert lengri tíma, ég hefði þurft að fletta nokkrum sinnum upp í stafsetningarorðabók og svo hefði ég þurft að koma greininni á pappír til einhvers á ritstjórn sem hefði...þið getið í eyðurnar um leið og þið lesið greinina á netinu. 

Ég sendi boltann svo til Ragnheiðar Jakobsdóttur athafnakonu og framkvæmdarstjóra Ferðaskrifstofu Akureyrar og skora á hana að koma með pistil í næstu viku.

-Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri.

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast