Samvera

Stefán Gunnarsson.
Stefán Gunnarsson.

Stefán Gunnarsson heldur um áskorendapennnan að þessu sinni.

Það fylgja því ákveðin forréttindi að skríða á sextugsaldur. Nú hef ég eiginlega formlegt leyfi til að tuða og finnast allt hafa verið betra í gamla daga. Ekki það að ég hef alltaf gert það, en nú má ég þar samkvæmt óskrifuðum reglum samfélagsins. Annað sem fylgir því að eldast er að með auknum þroska verður auðveldara að skipta um skoðun. Ég varði nýliðinni jólahátíð með fjölskyldunni minni í Flórída. Ég skal viðurkenna það að ég hef fram að þessu verið mjög fastheldinn á jólahefðir á mínu heimili og fundið því allt til bölvunar að vera ekki heima hjá mér um jól. Þess er skemmst að geta að í jólamatinn át ég hattinn minn. Hvílík dásemd. Ekkert jólaskraut, engin jólalög. Það þurfti ekkert að elta jólin, ekki í IKEA, ekki í Húsasmiðjuna og alls ekki á Glerártorg. Jólin voru bara með okkur á rölti um matvöruverslun og í grillmatnum, samræðunum og nýja spilinu sem við gáfum okkur í jólagjöf. Hljómar svolítið eins og gömul jólasaga, já það var allt betra í gamla daga. 

Mig hefur lengi blöskrað þessi manía sem gengur yfir þjóðina í desember og virðist bara vera hluti af einhverri þjóðarsamþykkt. Það var þess vegna mjög kærkomið að kúpla sig frá jólahaldi, en um leið dálítið skrítið. Ekki það að við höfum svo sem aldrei verið upptekin af þessum æðibunugangi en engu að síður. Það sem stóð uppúr var samvera fjölskyldunnar. Er það ekki það sem jólin eiga að vera? Kannski má leiða líkum að því að ef við héldum oftar svona jól, án allra tilbúinna þarfa, jól þar sem fjölskyldan er saman og þarf ekki að sækja alla jólatónleikana, jólavökur verslana og bókaupplestrana. Héldum bara litlu jól jafnvel nokkrum sinnum á ári þá næðum við betur utan um hvert annað. Ég er nefnilega á sextugsaldri og má finnast við vera að fjalægjast gömul gildi. Ég má hafa þá skoðun að um leið og snjallsímar færa okkur nær þeim sem eru langt frá okkur þá færa þeir okkur fjær þeim sem næst okkur sitja. Ég má vera hikandi við öll þessi samskiptaforrit sem eru meira eins og lítil örleikrit sem við setjum upp fyrir heiminn til að sjá. Það eru kostir þess að vera farinn að eldast. 

Mér þykir nefnilega samskiptum hafa farið aftur. Umræðuhefð er á undanhaldi fyrir kappræðum. Sú hefð hefur til dæmis skapast í pólitískri umræðu að ráðast miskunarlaust á mótherja sína án þess að hafa endilega sjónar á málefninu. Ég hef kallað þetta Vinnie Jones umræðuhefð þar sem menn fara beint í manninn ef þeir ná ekki boltanum. Við þurfum einhvern vegina að dæma allt, hafa skoðun á öllu og helst vita betur en aðrir, í það minnsta hafa síðasta orðið. Þar er stundum sagt að það sem við skiljum eftir okkur er minningin um nærveru. Við þurfum þess vegna að huga að því að vera til staðar fyrir samferðafólkið okkar. Það þarf ekkert alltaf að segja svo mikið. Þegar upp er staðið man fólk frekar eftir því hvernig því leið á ákveðnum tíma heldur en hvað var sagt. Verum því til staðar fyrir hvert annað. Höldum jól. Hver veit, kannski erlendis aftur.

Ég skora á Hörð Finnbogason í að skrifa pistil í næsta blað.

 

 


Nýjast