Saga tveggja borga

Ragnar Sverrisson skrifar:

„Borgarstjóri Akureyrar býður til opins íbúafundar fimmtudaginn 10. febrúar kl. 20:00 þar sem kynnt verður það sem efst er á baugi í skipulagsmálum innan borgarinnar og mun eiga samtal við fundarmenn um framtíðarþróun hennar. Íbúar eru hvattir til að senda spurningar sínar fyrir fundinn svo upplýsa megi um það sem þeim er ofarlega í huga.”  

Raggi Sverris

Til þess að forðast allan misskilning er rétt að taka fram að ofangreind auglýsing er fullkomin fjarstæða og ekki tengd Akureyri á nokkurn hátt. Hins vegar er hún nær samhljóða auglýsingu sem borgarstjóri Reykjavíkur birti á dögunum þar sem hann boðar til fundar með íbúum Laugardals og nágrennis og sækist greinilega eftir að eiga samtal við borgarbúa um málefni sem þá varðar. Borgarstjóri og borgarfulltrúar treysta sér greinilega til að ræða þessi mikilvægu málefni beint við íbúa. 

Hér á Akureyri gegnir allt öðru máli því síðustu ár hefur margoft verið farið fram á slíka samráðsfundi eða beint samband bæjarfulltrúa við íbúa um skipulagsmál en því hefur aldrei verið ansað hvað þá meir.  Síðast reyndi undirritaður í haust að særa fram viðbrögð í Vikublaðinu með því að beina ósk um íbúaþing vegna breytinga á skipulagi miðbæjarins til forseta bæjarstjórnar, Höllu Bjarkar Reynisdóttur.  Hún hefur hins vegar ekki séð sér fært að svara því erindi opinberlega.  Allt á sömu bókina lært: Bæjarfulltrúar hafa engan áhuga á að ræða við bæjarbúa – ekki einu sinni að svara beinum spurningum frá þeim hvað þá að útskýra eigin ákvarðanir í skipulagsmálum. Jafnvel það lítilræði er til of mikils mælst.  

Með hinni hugdjörfu ákvörðun að mynda eins konar þjóðstjórn um bæjarmálin hefur bæjarstjórnin að margra mati endanlega breyst í venjulegan saumaklúbb þar sem innvígðir föndra og hjala góðlátlega yfir kaffi og með því. Allur óþarfa gestagangur er illa séður í þessum klúbb eins og öðrum slíkum þar sem miklu skiptir að ekkert fréttist út enda trúnaður undirstöðuregla sérhvers góðs saumaklúbbs. Þegar öll þessi huggulegheit eru skoðuð hlýtur sú áhugaverða spurning að vakna hvort hið eina sanna framboð til bæjarstjórnar næsta vor komi ekki bara frá saumaklúbbnum góða?  Hann er með þetta allt á hreinu; einn listi, ein hugsun og fullkomin eining um framboðslistann eina. Meginkostur þess að hafa einn framboðslista er að bæjarbúar þurfa ekki að hafa fyrir því að velja bæjarfulltrúa enda þegar búið að taka af þeim ómakið. Hinn ástsæli Akureyrarflokkur sér um það; samstaðan mun blómstra sem aldrei fyrr og  íbúalýðræðið loks birtast í sinni fegurstu mynd auk þess sem allt ónæði verður úr sögunni.

Eflaust þykir bæjarfulltrúum okkar skrýtið að tala og masi við borgarbúa þegar hægt er að komast hjá því og hafa þetta svona þægilegt og friðsamt eins og hér á Akureyri. En nú berast fregnir um að 75% bæjarbúa séu óánægðir með hvernig að skipulagsmálum er staðið hér í bæ. Ef til vill væri hægt með ítrustu gát að upplýsa bæjarfulltrúa um þessa afstöðu fólksins ef það gæti orðið til þess að þeir spyrðu sjálfa sig hvort þeir væru á réttri leið.  

Ragnar Sverrisson

kaupmaður


Athugasemdir

Nýjast