Raflínur við Rangárvelli

Landsnet boðar nú til kynningarfunda vegna umhverfismats á nýrri útfærslu af Blöndulínu 3. Sú lína verður hluti af öflugri 220 kV tengingu milli Blönduvirkjunar og Fljótsdalsvirkjunar, sem styrkir afhendingu raforku á Norður og Austurlandi.

Fyrri hugmyndir um legu Blöndulínu við Akureyri gerðu ráð fyrir nýju tengivirki við Kífsá, í hlíðinni norðan Hálanda og Hesjuvalla. Nú er miðað við yfirbyggt tengivirki við Rangárvelli, vegna Hólasandslínu 3 úr austri og Blöndulínu 3 úr vestri.

Miklu skiptir fyrir Akureyri hvernig útfærsla verður á tengingunni næst Rangárvöllum. Hólasandslína mun tengjast með jarðstreng, en hinsvegar kynnti Landsnet fyrir nokkrum misserum að Blöndulína yrði tengd sem loftlína alla leið í tengivirki.

Nokkur atriði sem vert er að hafa í huga.

1.  Hljóðvist við 220 kV loftlínu er allt önnur en við þær línur sem nú eru til staðar. Efstu íbúðarhús eru í ca 250 m fjarlægð frá núverandi línum. Hávaði frá háspennulínum getur rýrt framtíðarkosti vegna skipulags, auk áhrifa á núverandi byggð.

2.  Landsnet leysir þetta við Hafnarfjörð vegna 220 kV Suðurnesjalínu 2, með því að leggja til 1.5 km jarðstreng næst tengivirki, vegna nálægðar við íbúðabyggð.  Svipuð lausn gæti hentað hér.

3.  Landþrengsli eru veruleg í bæjarlandinu, og þörf á að nota bestu aðferðir til landnýtingar.  Helgunar og áhrifasvæði 220 kV háspennulínu er verulega stærra en jarðstrengja, og líftíminn er 60-80 ár.

4.  Vegna landnýtingarsjónarmiða væri kjörið að taka frá belti til norðvesturs frá Rangárvöllum, sem frátekið væri fyrir jarðstrengi til langrar framtíðar. Stefna ætti að því að allar raflínur fari þar  í jörð, vegna hagsmuna íbúðarbyggðar og skipulags.  Ljóst er að mun auðveldara er að samræma slíkan kost að hagsmunum  þéttbýlis, en belti háspennulína.  

Því virðist augljós kostur að nýta jarðstreng í Blöndulínu 3 fyrsta spölinn út frá Rangárvöllum, enda í fullu samræmi við stefnu stjórnvalda um lagningu raflína.

-Víðir Gíslason

 


Athugasemdir

Nýjast