Órofa samstaða um alvarlegt skipulagsslys

Ragnar Sverrisson.
Ragnar Sverrisson.

Tveir heiðursmenn - Jón Þorvaldur Heiðarsson og Jón Ingi Cæsarsson -   hafa lýst opinberlega miklum áhyggjum vegna áforma bæjarstjórnar Akureyrar að hafa fjögurra akreina hraðbraut í gegnum miðbæinn í stað tveggja eins og gildandi skipulag gerir ráð fyrir. Jón Ingi áréttar að á tíu ára vinnslutíma núgildandi skipulags hafi verið algjör samstaða innan bæjarstjórnar um að þrengja Glerárgötuna og "tengja Miðbæjarsvæðið við Torfunefið, lykilatriði til að stækka bæjarsvæðið í raun og auka áhuga bæjarbúa á útivist og uppákomum tengdum mannlífi og miðbæ".  Hann  bætir við: "Nú bregður svo við í tillögu 2021 að þessu lykilatriði er kastað út ...."  Jón Þorvaldur víkur einnig að því sama í grein á dögunum og segir að nú sé stefnt að því að hafa fjögurra akreina braut sem á "að ráða miðbæ Akureyrar næstu nokkur hundruð árin." Enn fremur: "Allt of mikil þrengsli og afar erfitt að skapa austur vestur ása, tengslin við pollinn lítil eins og áður." 

Varðandi meintan kostnað við að mjókka götuna þarna hafi útreikningar sýnt "að gatnagerðargjöld og fasteignaskattar af auka byggingarmagni borga færsluna í fyllingu tímans og vel það. Þannig að ekki er það kostnaðurinn sem aftrar," segir Jón Þorvaldur. Jón Ingi klappar sama stein og skorar á bæjaryfirvöld "að opna augun og átta sig á hvaða mistök eru í uppsiglingu.  Þrenging Glerárgötu alla leið er lykilatriði, annað eru vond mistök." 

Afdrifarík stefnubreyting

Hér er teflt fram veigamiklum rökum sem full ástæða er til að ræða innan bæjarstjórnar og utan.  Almenn umræða var einmitt lífleg á undirbúningsferli núgildandi miðbæjarskipulags á árunum 2004 til 2014, ekki síst á opnum upplýsingafundum. Eftir allar þessar umræður með bæjarbúum var komist að málamiðlun um ýmis álitamál.  Meðal annars var ákveðið samhljóða að bæta umferðaröryggi Glerárgötu "og henni breytt í aðlaðandi bæjargötu frá Kaupvangsstræti ..." eins og segir í greinargerð með núgildandi skipulagi. Þar segir einnig: "Með þessum breytingum ásamt nýjum byggingum vestan götunnar verður Glerárgata, Pollurinn og Hof órjúfanlegur hluti miðbæjarins." Þetta var algjörlega í samræmi við óskir fjölmennasta íbúaþings landsins en nú er greinilegt að bæjarfulltrúar vilja hverfa frá þessari mikilvægu stefnu og hafa þarna áfram fjögurra akreina hraðbraut,  fækka göngustígum yfir hana frá því sem ákveðið var og láta bílaumferð hafa forgang. Til þess svo að bjarga einhverju af því byggingamagni sem tapast við þessa ósvinnu er gripið til þess örþrifaráðs að hækka byggingar fyrir vestan götuna í fjórar til fimm hæðir þvert á óskir íbúaþings um að þarna verði lágar byggingar. "Verði þetta reyndin verður einstöku tækifæri fyrir Akureyri varpað út um gluggann", segir Jón Þorvaldur réttilega.

Enginn rökstuðningur

Hitt er ljóst að þessi gjörbreytta afstaða bæjarstjórnar er ekki afrakstur viðræðna við bæjarbúa eins og var.  Þvert á móti hafa bæjarfulltrúar lokað sig kyrfilega af í málinu frá bæjarbúum, hjalað sín á milli og tilkynnt síðan af nokkru yfirlæti kúvendingu á grundvallaratriðum miðbæjarskipulagsins.  Þegar óskað er eftir rökum fyrir svo afdrifaríkri stefnubreytingu er því einfaldlega ekki svarað.  Þögn og enginn rökstuðningur, ekki viðlit að toga neitt slíkt út til að átta sig á hvað fólkinu gengur til. Með þessa sérkennilegu atburðarás í huga hefur sá sem þetta ritar á tilfinningunni að troða eigi umræddri sundurlimun miðbæjarins með mengandi hraðbraut ofan í kokið á bæjarbúum með órofa samstöðu og samræmdri þögn bæjarfulltrúa. Það gæti hins vegar verið fróðlegt í framhaldinu að ræða við þetta ágæta fólk um íbúalýðræði og þýðingu þess í nútíma samfélagi.

-Ragnar Sverrisson, kaupmaður

 

 

 


Nýjast