Orð og athafnir

Ragnar Sverrisson, kaupmaður
Ragnar Sverrisson, kaupmaður

Eftir að hafa lesið mjög athyglisverða grein Hildar Jönu Gísladóttur í blaðinu fyrir hálfum mánuði rann upp fyrir mér sá helkaldi veruleiki að það telst til tíðinda að bæjarfulltrúi tjái sig opinberlega um mikilvægt málefni. Þeir gera það nánast aldrei, jafnvel þó þeir séu beðnir vinsamlega um að upplýsa íbúa og gera þeim betur kleift að átta sig á ýmsum ákvörðunum sem teknar eru innan veggja bæjarstjórnar. Þögnin hefur verið einkenni bæjarfulltrúa og þeir forðast síðustu árin að eiga orðastað við bæjarbúa um málefni sem skipta þá miklu máli. Það var því að vonum að margir trúðu vart sínum eigin skilningarvitum þegar bæjarstjórnin okkar tilkynnti á vefsíðu fyrir skömmu að til stæði að móta „sérstaka stefnu um íbúasamráð.” Þetta þótti mér svo ótrúlegt að ég vildu láta segja mér það þremur sinnum áður en ég trúði að þarna fylgdi hugur máli. Þess vegna óskaði ég eftir staðfestingu frá bæjarstjórn á því að hlustað yrði á hugsanleg viðbrögð bæjarbúa við þessum tillögum, þau rædd og síðan tekin ákvörðun í bæjarstjórn öfugt við það sem gert hefur verið í slíkum málum síðustu árin. Að öðrum kosti væri eins víst að ekkert yrði gert með athugasemdir frá íbúum og þær færu bara eins og undanfarin ár beint í stóra tætarann á bæjarkontórnum.  Eins og vanalega var þessari litlu ósk ekki ansað, engin staðfesting að hlustað yrði á innsendar ábendingar í boði og það sem meira var: Ekki einn einasti bæjarfulltrúi tjáði sig opinberlega um þessar tillögur þeirra sjálfra né hvatti til umræðu um þær.

Ein afleiðing allrar þessarar deyfðar var sú að enginn blaða- eða fréttamaður spurði heldur spurninga um svo mikilvægt málefni, enginn þáttastjórnandi fjölmiðla efndi til umræðna um það og ekkert fjallað um tillögurnar með nokkrum hætti; aðeins þurr kynning á bæjarstjórnarfundi þar sem fjórir tóku til máls – búið.

Samráð við bæjarbúa um fjölbreytt málefni þessa samfélags okkar er vissulega mikilvægt. En þá verður líka að sýna þeim og tillögum þeirra lágmarks virðingu líkt og gerðist þegar fjölmennasta íbúaþing landsins árið 2004 lagði meginlínur hvernig ætti að endurbæta miðbæinn okkar. Það samráð kom hins vegar algjörlega að frumkvæði áhugafólks og fyrirtækja úti í bæ með átakinu Akureyri í öndvegi. Þá máttu stjórnvöld bæjarins eiga það að þau tóku  tillögum íbúaþingsins fagnandi og lögðu þær til grundvallar við lokaákvörðun árið 2014. Á síðasta kjörtímabili hundsaði bæjarstjórn hins vegar allar meginlínur sem lagðar voru á íbúaþinginu sæla og samþykkti að fara allt aðra og ógæfulegri leið í miðbæjarskipulaginu án þess að hafa um það nokkurt samráð hvað þá samtal við bæjarbúa. Slétt sama um fyrirliggjandi ábendingar fjölmenns íbúaþings um grundvöll umrædds skipulags. Þegar þetta sama fólk boðar nú mikla og jákvæða byltingu um samvinnu við bæjarbúa þá þarf meira gáfnaljós en undirritaðan til að skylja heilindin þar á bak við.    

Ragnar Sverrisson

kaupmaður 

 


Athugasemdir

Nýjast