Nýtum tækifærið til uppbyggingar íþróttamannvirkja

Sveinn Arnarsson.
Sveinn Arnarsson.

Öflugt og fjölbreytt íþróttastarf er og á að vera eitt aðalsmerkja Akureyrarbæjar. Íþróttir skipta ekki aðeins máli fyrir börn, ungmenni og afreksfólk, heldur einnig almenning og atvinulíf í sveitarfélaginu. Til þess að gott íþróttastarf geti þrífist þá er nauðsynlegt að aðbúnur sé í lagi.

Akureyrarbær hefur sett fram íþróttastefnu og forgangsröðun í uppbyggingu íþróttamannvirkja. Yfir áratugur er liðinn frá því að ákveðið var að byggja upp tvö íþróttasvæði hér í bæ, á svæðum Þórs og KA og nýta jafnframt Akureyrarvöll undir annað og meira en knattspyrnuiðkun.

Hafist var handa við íþróttasvæði Þórs og byrjað að grafa holu á KA svæðinu. Grafið ofaní umrædda holu í kjölfar bankahrunsins 2008 og ákveðið að fresta framkvæmdum. Nú er veruleg viðhaldsþörf á Akureyrarvelli og væri óskynsamlegt að setja fjármagn í að lappa upp á svæðið ekki síst þar sem þar væri aðeins um skammtímaráðstöfun að ræða.

Í samræmi við samþykkta forgangsröðun í uppbyggingu íþróttamannvirkja Akureyrarbæjar þá er næst á dagskrá að ráðast í byggingu félags- og æfingaaðstöðu við Skautahöllina. Samhliða því þarf að fara í markvissan undirbúning vegna framkvæmda á KA svæðinu.

Það er ákjósanlegt að hefja framkvæmdir hið fyrsta í núverandi árferði þar sem harnað hefur á dalnum. Slaki er í hagkerfinu vegna kórónuveirufaraldursins, vaxtastig er lágt og er hjá ríkinu uppi endurgreiðsluáform.

Það er mín bjargfasta afstaða að nýta eigi tækifærið og ráðast í þessar framkvæmdir sem allra fyrst. Allir bæjarfulltrúar hafa samþykkt að fara í þessar framkvæmdir. Nýtum fjármagnið sem best, brettum upp ermar og látum verkin tala.

-Höfundur er fulltrúi Samfylkingar í frístundaráði


Athugasemdir

Nýjast