Nýárskveðja mín til pípulagningarmanna

Svavar Alfreð Jónsson.
Svavar Alfreð Jónsson.

Sundskýluþeytivindan í sturtuklefum Sundlaugar Akureyrar er hið mesta þarfaþing. Eftir að hún kom til sögunnar þarf ég ekki lengur að troða hráblautri skýlunni minni ofan í sundtöskuna þar sem allt verður meira og minna rakt í kringum hana. 

Við þeytivinduna er skilti með notkunarleiðbeiningum. Þar er meðal annars sagt að ekki eigi að láta skýluna þeytast í apparatinu lengur en sex sekúndur. Þau fyrirmæli hef ég tekið mjög alvarlega og talið hægt og rólega upp að sex í huganum áður en ég opna vinduna og næ í sundskýluna sem þá er orðin þokkalega þurr. Ég vil alls ekki fara yfir uppgefin tímamörk til að spara rafmagn, slíta ekki tækjum að óþörfu og spara almannafé. 

Þetta gerði ég í fyrstu heimsókn minni í sundlaugina á nýju ári. Eftir að hafa farið í sturtu fór ég að venju með sundskýluna mína að hinu þarfa tæki, setti hana þar ofan í, lokaði og hóf talningu.  

Þegar ég hafði talið yfirvegað og örugglega upp að fimm í huganum gengur framhjá á Adamsklæðum einn af frambærilegri pípulagningarmönnum bæjarins, heilsar mér glaðlega og segir:  

„Gleðilegt árið!“ 

Að sjálfsögðu tók ég undir kveðjuna og svaraði hátt og snjallt svo undir tók í klefanum: 

„Sex!“ 

 -Svavar Alfreð Jónsson


Athugasemdir

Nýjast