Nú er það Norðurland!

Hulda Ragnheiður Árnadóttir.
Hulda Ragnheiður Árnadóttir.

Ert þú leiðtogi,  stjórnandi eða rekur þú þitt eigið fyrirtæki? Eða ertu kannski brautryðjandi á þínu svæði?

Ég þekki það af eigin reynslu að það getur verið mikil áskorun að vera kona með stórar hugmyndir í litlu samfélagi. Ég hef oft hugsað til þess á síðustu árum hversu mikið ég vildi að það væri sterkari hefð fyrir því að konur standi saman, hampi hver annari og hvetji hver aðra áfram til góðra verka. 

Ég hef notið þeirra forréttinda á síðustu árum að taka þátt í starfi Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Það hefur reynst mér einstaklega vel að styrkja tengsl mín við aðrar konur sem eru í fararbroddi í atvinnulífinu og deila með þeim sigrum og áskorunum úr vinnuumhverfinu. Í þessum félagsskap hef ég eignast sterkar fyrirmyndir sem hafa verið mér mikil hvatning til að takast á við  ný verkefni.

Það eru nokkur ár síðan ég heyrði að kraftaverkin gerðust ekki inni í þægindahringnum mínum. Ég heyrði líka að til þess að  kraftaverkin gerðust þurfum við að stíga út úr þægindahringnum og út í óvissuna.

Eitt af þeim kraftaverkum ég hef upplifað við að stíga út út mínum þægindahringvar þegar ég gaf kost á mér sem formaður í FKA s.l. vor. Það gerði ég ekki síst af því að mig langaði m.a til að sjá meiri áherslu lagða á eflingu landsbyggðadeildanna. Ég bjó sjálf á Norðurlandi alla mína æsku og fyrri hluta fullorðinsára og veit hversu mikilvægt er að fá fleiri hugmyndir og virkari  þátttöku inn í samfélagið. Félagskonur í FKA hafa einlægan áhuga á að efla allar konur í atvinnulífinu, jafnt á landsbyggðinni sem höfuðborgarsvæðinu. Við hvetjum konur til að lyfta hver undir aðra, styðja hver aðra með samstöðu, miðlun þekkingar og sameiginlegri sókn til að nýta tækifærin sem gefast til hins ítrasta.

Föstudaginn 14. febrúar erum við að koma til Akureyrar og ætlum að halda sannkallaðan FKA ORKUFUND, þar sem við hittumst, tengjumst, eflumst og gleðjumst. Ég og Andrea Róberts, framkvæmdastjóri FKA munum mæta með stjórnarkonunum Margréti Jónsdóttur Njarðvík, nýráðnum Rektor Háskólans á Bifröst og Sigríði Hrund Pétursdóttur, athafnakonu í  byggingariðnaði. Við verðum á persónulegu nótunum ásamt því að ræða um hvernig landsbyggðardeildirnar geta haft aukin áhrif á stefnu FKA og viðburði sem eru framundan, bæði á hjá FKA Norðurlandi og á landsvísu. Við ætlum að sýna ykkur fram á  að skíðamót á Siglufirði er frábært til  að mynda tengslanet, jafnvel þó að maður kunni ekkert á skíði.  Það er ekki það sem skiptir máli heldur ferðalagið til og frá skíðamótinu þar myndast tengslin.  

Ef þú svaraðir einhverri af fyrstu þremur spurningunum játandi þá er þetta þitt tækifæri til að mæta og máta þig við FKA kl. 17.00, föstudaginn 14. febrúar á Hótel KEA.  Þú ert svo sannarlega velkomin og við hlökkum til að hitta þig og fá tækifæri til að kynnast þér betur.

 


Nýjast