Nóg að gera á Norðurlandi

Ingibjörg Isaksen
þingflokksformaður Framsóknar
Fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis
Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður Framsóknar Fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis

Það er óhætt að segja að mikil framsókn hafi verið að undanförnu í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Síðustu ár hefur ferðaþjónusta á Norðurlandi-eystra blómstrað. Með nýjum upplifunum er möguleiki að ná fleiri ferðamönnum á svæðið og fá þá til þess að stoppa lengur, aðal vandamál ferðaþjónustunnar á svæðinu hefur verið stutt ferðamannatímabil en með tilkomu á beinu flugi Niceair á Akureyri eru allar líkir á að tímabilið muni lengjast í báðar áttir. Góðar fréttir berast af bókunarstöðu í ferðir þessa nýja flugfélags sem án efa mun reynast mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi.

 Fjölbreytt ferðaþjónusta

 Það er óhætt að segja að tækifæri leynist víða á svæðinu og það er ánægjulegt að sjá frumkvöðla í nýsköpun í ferðaþjónustu taka af skarið.  Hótel á Norðurlandi eru víðast hvar að verða uppbókuð sem er sérstaklega ánægjulegt eftir erfið ár í covid faraldri. Við sem höfum ferðast um Norðurland vitum hversu fjölbreytt svæðið er, hér má svo sannarlega finna afþreyingu fyrir alla, hvort sem það eru gönguferðir, hvalaskoðun, golf, hjólaferðir o.s.frv. lengi má áfram telja. Svæðið er ríkt af náttúruperlum sem og fjölbreyttum fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Demantshringurinn sem var formlega opnaður 2020 hefur styrkt ferðaþjónustuna en hann gerir okkur kleift að heimsækja fjölmargar náttúruperlur á einum degi og hefur opnað norðausturhornið enn betur fyrir innlendum og erlendum gestum

 Þá er það sérstakt fagnaðarefni hvað við getum státað okkur af gríðarskemmtilegri og fjölbreytt baðmenningu. Það mætti hugsa sér að búa til leik sem fælist í því að hoppa á milli staða og dýfa tánni ofan í öll böð sem í boði eru. Bjórböðin, Sjópottarnir í Sandvíkurfjöru, Jarðböðin, Sjóböðin og Skógarböðin að ógleymdum öllum sundlaugunum á svæðinuhjálpa til við uppbyggingu ferðaþjónustunnar. Það er sérstaklega ánægjulegt að finna kraftinn sem býr í fyrirtækjum á svæðinu, þar er greinilegt að hér er verið að byggja til framtíðar.

 Von um hlýtt og gott sumar eftir erfiðan vetur

 Ferðaþjónustan og fyrirtækin á svæðinu væru ekkert ef ekki væri fyrir þá einstaklinga sem standa að baki þeim. Síðust ár hafa svo sannarlega tekið á en með krafti, þrautseigju og dugnaði standa fyrirtækin enn og eiga þau lof skilið. Það eru fyrirtækin sem hjálpa til við að skapa þá menningu og það samfélag sem við viljum búa í. Þau skapa fjölbreytta atvinnu og auðga samfélagið. Því hvet ég alla til þess að vera dugleg að bjóða gestum heim og láta vita af öllum þeim lystisemdum sem Norðurlandið hefur upp á að bjóða. Uppbygging hefur svo sannarlega verið víða á undanförnum árum og við getum verið stolt af svæðinu okkar.

 Verum dugleg að nýta okkur þá afþreyingu sem er í boði á svæðinu og njóta sumarsins með þeim sem okkur þykir vænt um.

 Skellum okkur í sund, förum í göngutúra, kíkjum á kaffihús eða tónleika og sleikjum sólina.

 Gleðilegt sumar!

 Ingibjörg Isaksen

þingflokksformaður Framsóknar


Athugasemdir

Nýjast