Mygla í skólum bæjarins

Helga Dögg Sverrisdóttir.
Helga Dögg Sverrisdóttir.

Sá vágestur sem við nefnum mygla hefur látið að sér kræla í skólum bæjarins. Reyndar er það ekki á vitorði allra því forsvarsmenn virðast vilja halda því leyndu. Fyrir hvern er ekki vitað.  Í það minnsta upplifir skólafólk og foreldrar það þannig. Mygla er vandamál í mörgum byggingum, þar á meðal skólum. Við höfum fylgst með umræðu um skóla á höfuðborgarsvæðinu þar sem illa gengur að ráða við þennan vágest. Afleiðingarnar í sumum tilfellum skelfilegar fyrir heilsu barns.

Miklu hefur verið tilkostað vegna Kórónuveirunnar og menn forðast smit. Sem betur fer veiran mjúkum höndum um börn, annað en mygla. Mörg börn líða fyrir myglu með alls konar einkennum og tímabært að opna augun fyrir því.

Í skólahúsnæði eru bæði börn og fullorðnir. Menn eru misnæmir fyrir myglu. Sumir finna lítið fyrir henni á meðan aðrir eru með einkenni, eins og kvef, nefrennsli, höfuðverk, liðverki o.s.frv. Mygla getur leitt til örorku sé íhlutun ekki snemmtæk. Undrast má að það taki mörg ár að fá áheyrn þar til bærra yfirvalda um að myglu sé að finna í skólahúsnæði. Þegar kvörtum um slíkt kemur eigi skólayfirvöld að einhenda sér í verkið, finna út hvort um myglu sé að ræða og ráðast í aðgerðir til að vernda starfsfólk og nemendur. Yfirvöld eiga ekki að draga orð starfsmanna eða foreldra í efa eða gera þau tortryggilega.

Í bókinni Martröð um myglu eftir Stein Kárason (2017) er rætt við fólk sem hefur mátt þola veikindi vegna myglu. Mismikil veikindi og einkenni. Í kynningu bókarinnar segir ,,Veikindi og heilsutjón af völdum myglusveppa eru samfélagslegt böl sem nauðsynlegt er að koma í veg fyrir. Fjárhagslegt tjón er verulegt. Fræðsla um orsakir og afleiðingar af völdum myglusveppa er nauðsyn. Þar til bærir aðilar þurfa að sýna ábyrgð. Hönnun húsa, byggingaraðferðir, ábyrgð og eftirlit með húsbyggingum er höfuðatriði til að koma í veg fyrir myglutjón, einnig viðhald og umgengni fólks í húsum og híbýlum. Löggjöf og viðurlögum í þessum efnum er ábótavant.“

Skólayfirvöld verða að sýna ábyrgð þegar kemur að myglu í skólahúsnæði. Heilsa er ekki metin til fjár. Langtímaveikindi starfsmanna eða nemenda er ekki óskastaða nokkurs. Foreldrar þurfa að fylgjast vel með viðbrögðum barna sem fá kennslu í húsnæði þar sem mygla er. Takið eftir hvort einkenni hverfi þegar barnið fer út úr skólanum og alls ekki þegja um það.

Þegar mygla kemur upp í skólahúsnæði á að halda öllum vel upplýstum, starfsmönnum, nemendum og foreldrum. Mygla í skólahúsnæði á ekki að vera leyndarmál og ekki á að draga úr áhrifum hennar.

-Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari og trúnaðarmaður


Athugasemdir

Nýjast