Menningarleg sérstaða

Huld Hafliðadóttir
Huld Hafliðadóttir

Ítalskur kunningi minn, búsettur hérlendis, birti nýverið færslu á Facebook um veðrið á Íslandi og þá sérkennilegu staðreynd að Íslendingar láta ung börn sín oftar en ekki sofa úti í öllum veðrum. Með færslunni fylgdi mynd sem tekin var af röð barnavagna í hríðarveðri liðinnar viku, þar sem þeir lúrðu í skjóli fyrir utan leikskólann hér í bæ.

Færslan rifjaði upp skondið atvik sem átti sér stað fyrir ári síðan og minnti mig á þá menningarlegu sérstöðu sem þessi gjörningur er.

Þannig var að ég var stödd á kaffihúsi við höfnina og með í för var nokkurra mánaða gamall sonur minn sem lá sofandi í barnavagni fyrir utan. Covid19 hafði þarna ekki náð að setja mörg strik í reikninga ferðamanna á Íslandi og því voru enn einhverjir á ferðinni hér og hvar.

Ekki hafði ég setið lengi með kaffibollann þegar barnapíutækið gaf mér merki um að það hefði numið hljóð nálægt vagninum og heyrði ég fljótlega að um áhyggjufulla ítalska konu var að ræða. Ég leit út um gluggann og sá hvar stumruðu tvær konur yfir vagninum og furðuðu sig líklega á að þarna stæði barnavagn einn og yfirgefinn og það sem meira var, að í honum væri raunverulega sofandi barn.

Ég veit ekki hvor okkar var í meira uppnámi þegar við hittumst úti á stéttinni, sú ítalska yfir þessari rugluðu íslensku móður sem hafði skilið barnið sitt eftir svo að segja úti á götu eða sú íslenska yfir afskiptasemi þeirrar ítölsku og fyrir að hafa verið við það að raska ró barnsins (að því er virtist algjörlega að ástæðulausu... tja, að minnsta kosti á hinn íslenska smábæjarmælikvarða).  


Nýjast