Meira um svifrykið

Hjörleifur Hallgríms
Hjörleifur Hallgríms

Mikið hefur verið rætt og ritað undanfarið um mikla svifryksmengun sem mælst hefur hér á Akureyri. Sagt hefur verið lengi að naglar í dekkjum bíla Akureyringa séu stór þáttur í svifryki því, sem myndast hefur en annað kemur líka til og ekki minna. Fyrir stuttu datt einhverjum snillingnum í
hug að ausa söltum sjó í sandinn og drulluna án þess að hreinsa áður svo úr varð einn drullupyttur eins og margir tala um og útlit ökutækja bæjarbúa er eins og þeim hefði verið ekið í drullubaði daginn út og inn.

Andri Teitsson, bæjarfullltrúi frá L-listanum, kom líka fram í sjónvarpsviðtali og viðurkenndi að mælingar á svifriki sem komu svona illa út hefðu verið framkvæmdar áður en göturnar voru hreinsaðar. Ökumenn höfðu líka vart undan að þrífa bíla sína um þessar mundir. Haldin hefur verið mótmælafundur vegna ástandsins og stofnuð síða á netmiðlum þar sem notuð hafa verið miður sterk og niðrandi lýsingarorð, sem m.a. hafa farið fyrir brjóstið á Hildu Jönu bæjarfulltrúa að sagt er.

Þá vona ég að frú Ásthildur bæjarstjóri hafi bara verið að grínast þegar hún viðraði það að vonandi þyrfti ekki að setja takmarkanir á notkun bifreiða í bænum allavega tímabundið. Mig grunar að þar hafi frúin verið að vitna í mjög óábyrgt tal óvandaðra borgarfulltrúa meirihlutans í Reykjavík, sem hafa auðvitað ekki hugmynd um landslag hér á Akureyri og oft erfitt að aka í brekkunum þegar mikil hálka er á
vetrum. Öflugur götusópur er sagður væntanlegur en hann verður ekki kjaftaður norður því það þarf meira til en svoleiðis tæki er mjög sjaldséð á götum Akureyrar.

Það sem til þarf er að hreinsa skítinn af götunum og síðan smúla þær (hreinlega hvítþvo) og hættið svo að ausa sandi á göturnar á flatendinu eins og t.d. Glerárgötuna. Það þarf bara að sanda í mesta hallan upp á brekkurnar, sem svo þarf að sópa eftir þörfum. Þá segja mér fróðir menn að til sé harðara efni en nú er notað í malbikið og því ekki að nota það svo menn geti hætt að hrópa Úlfur, Úlfur , eða
réttara sagt Naglar, Naglar.

Ef rétt er með aðra blöndun á malbikinu myndi trúlega svifrykismengunin minnka verulega því ég á ekki von á að Akureyringar hætti að aka á nöglum, þeim mikla og góða öryggisbúnaði.

-Hjörleifur Hallgríms 


Athugasemdir

Nýjast