Mæðra- og ungbarnavernd fær góða gjöf

Frá vinstri: Aníta Rut ljósmóðir, Elva með Arnald Héðin, Arna Ýr, Sveindís Björk og Hulda Þórey ljós…
Frá vinstri: Aníta Rut ljósmóðir, Elva með Arnald Héðin, Arna Ýr, Sveindís Björk og Hulda Þórey ljósmóðir. Mynd/Aðsend

Ladies Circle 5 er klúbbur á Húsavík þar sem konur á aldrinum 18-45 ára funda mánaðarlega yfir vetrartímann, og eiga notalega stund saman. Við erum hluti af alþjóðlegu félagasamtökunum Ladies Circle og því erum við með gott tengslanet innanlands og erlendis. Við sækjum sameiginlega fundi út um allt land tvisvar sinnum á ári og okkur stendur einnig til boða að sækja fundi erlendis. Í klúbbnum okkar hér á Húsavík er fjölbreyttur hópur af konum, en við erum 17 talsins.

Við leggjum mikið upp úr góðgerðarstarfsemi og veljum að styrkja í nærumhverfi eins og hægt er. Svo dæmi séu tekin höfum við á undanförnum árum styrkt einstaklinga á svæðinu, keypt I-pad fyrir heimaþjónustu í félagsþjónustu Norðurþings, gefið gjöf til Kvennaathvarfsins á Akureyri og tekið þátt í að boðið sé upp á tíðavörur í grunnskólanum.

Góðgerðarmars á hverju ári

Við tökum þátt í góðgerðarmars á hverju ári og á fundi okkar í febrúar 2022 bar þáverandi stjórn undir klúbbinn að verkefnið yrði til styrktar mæðra- og ungbarnaverndinni á Húsavík að þessu sinni, og var það samþykkt samhljóða. Við erum frekar ungur klúbbur og höfum á síðastliðnum árum verið duglegar við að fjölga okkur og höfum mjög góða reynslu af þjónustunni sem meðgöngu- og ungbarnaverndin á Húsavík býður upp á. Okkur langaði því til þess að gefa til baka á einhvern hátt, og leggja þannig okkar að mörkum til þess að efla búnað á heilsugæslunni á Húsavík. Þáverandi formaður, sem þá var einmitt ófrísk af sínu þriðja barni, hafði þá samband við ljósmæðurnar sem starfa á svæðinu, Huldu Þóreyju og Anítu Rut, og forvitnaðist um hvað þeim vantaði helst.

Við komumst þá að því að það sem helst vantaði væri gulumælir og heyrnamælir fyrir nýbura. Þessi tæki kosta þó töluvert meira en við höfðum ráð á að styrkja um og kom þá upp sú hugmynd í klúbbnum að skora á aðra klúbba á svæðinu að taka þátt í verkefninu með okkur.

 Samstarf fleiri félagasamtaka

Fjórir aðrir klúbbar á svæðinu samþykktu að taka þátt í verkefninu með okkur, þ.e.: Kvenfélagið Aldan á Tjörnesi, Lionsklúbburinn á Húsavík, Soroptomistaklúbburinn á Húsavík og Kvenfélag Reykhverfunga.

Nú í desember síðastliðnum vorum við með sölubás í Jólabænum okkar, þar sem við seldum jólamola, jólamöndlur og jóla orniment, allt handgert af okkur klúbbskonum. Við ákváðum í kjölfarið að láta allan ágóða af sölunni renna óskertan í verkefnið okkar.

Verkefnið tók því mun lengri tíma en áætlað var, en upp á móti er styrkurinn líka mun hærri en lagt var upp með í upphafi.

 Mikilvæg tækjakaup

Nú á dögunum færðum við ljósmæðrunum sem starfa hér á heilsugæslunni peningagjöfina, sem var í heildina 730.000 kr. Þær upplýstu okkur þá um að það væri búið að ákveða að kaupa gulumæli á heilsugæsluna fyrir styrkinn.

Nýburagula getur verið hættuleg heilsu ungbarna og mikilvægt að greina hana snemma. Klínískt mat getur verið erfitt og mælir sem þessi getur aukið nákvæmnina til muna, auk þess að minnka þörfina á endurteknum blóðprufum sem valda bæði óþægindum og geta verið erfiðar í framkvæmd. Foreldrar hafa í gegnum tíðina þurft að sækja þjónustu til Akureyrar í þeim tilfellum sem gula hefur greinst hjá nýburum. Dæmi er um að foreldrar hafi þurft að dvelja lengur á sjúkrahúsi með barn sitt eftir fæðingu, þar sem hingað til hefur ekki verið hægt að mæla gildin heima í héraði, einnig að foreldrar hafi þurft að keyra endurtekið á heilsugæslustöð til þess að fara í blóðprufur með nýfædda barnið.

Framfaraskref fyrir ungbarnavernd á Húsavík

Ljósmæðurnar hafa lýst því yfir að þetta sé mikið framfaraskref fyrir stofnunina, og þá fyrst og fremst fyrir skjólstæðinga sína, gjöfin sé afar dýrmæt og þeir foreldrar sem gengið hafa í gegnum það sem lýst er hér að framan, skilji það manna best.

Með þessum pistli vildum við nýta tækifærið og vekja athygli á starfsemi klúbbsins, en Ladies Circle klúbbarnir eru í grunninn góðgerðasamtök, sem styrkja ýmis verkefni á ári hverju, innanlands og erlendis. Aðal innkoma klúbbanna eru félagsgjöld sem klúbbsmeðlimir greiða mánaðarlega.

Einkennisorð klúbbanna eru vinátta og hjálpsemi, og  við leitumst við að hafa þessi markmið að leiðarljósi í öllu okkar starfi.

Við erum afar stoltar af þessu verkefni sem og öðru sem klúbburinn stendur fyrir, og þakklátar fyrir að fá að vera hluti af þeirri flottu heild sem Ladies Circle er á heimsvísu.

Ladies Circle klúbburinn á Húsavík.


Athugasemdir

Nýjast