Lyktarskynið á þessum fordæmalausum tímum

Svavar Alfreð Jónsson.
Svavar Alfreð Jónsson.

Það er ekkert gamanmál að fá covid-19. Þar tala ég af reynslu. Þó fór veiran tiltölulega mildum höndum um okkur hjónin. Við erum bæði þakklát íslenska heilbrigðiskerfinu fyrir frábæra umönnun og öllum sem sendu okkur uppörvandi skilaboð.  

Covid-19 hefur áhrif á lyktarskynið. Hjá sumum dofnar það um tíma, aðrir glíma við brenglun á því og töluvert margir hætta alveg að finna lykt. Einhverjir fengu lyktarskynið ekki aftur fyrr en jafnvel vikum og mánuðum eftir að þeim batnaði. Sem betur fer dofnaði mitt lyktarskyn aðeins fáa daga en eiginkonan missti það alveg.  Þótt henni sé batnað er það enn brenglaðra en hún kysi. 

Nú um helgina ætlaði ég að gera vel við okkur og hafði lambasteik í kvöldmatinn. Tilkynnti ég konunni að brátt hæfist matseld niðri í eldhúsi. Skömmu síðar kallaði konan í mig af efri hæðinni. Hún sagðist halda að lyktarskynið væri að koma aftur því hún fyndi þennan líka indælis matarilm. Var hún bæði glöð og hróðug yfir heilsuframförunum. 

Mér þótti þetta furðu sæta því ég var ekki byrjaður að elda. Þegar ég hafði skokkað upp stigann skýrðist málið:  Annar heimiliskötturinn hafði fengið í magann og bjargað sér í sandkassann sem stóð rétt innan við galopnar salernisdyrnar. 

 


Athugasemdir

Nýjast