Lítil hætta af efnunum

Tölvumynd af fyrirhugaðri verksmiðju Íslandsþara á Húsavík.
Tölvumynd af fyrirhugaðri verksmiðju Íslandsþara á Húsavík.

Aðsend grein frá Íslandsþara ehf.

Framleiðsla og efnanotkun Íslandsþara

Við uppbyggingu á nýjum aðferðum við nýtingu náttúruafurða er nauðsynlegt að standa rétt að öllum athugunum og rannsóknum. Þá getur umræða farið fram byggt á upplýsingum og gögnum en ekki vangaveltum sem gerir alla ákvarðanatöku betri – um leið er svarað ýmsum eðlilegum spurningum sam vakna þegar kynntar eru nýjar lausnir.

Sem hluta að undirbúningi Íslandsþara hefur fyrirtækið látið framkvæma áhættumat vegna efnanotkunar og geymslu á hættulegum efnum í notuð yrðu í vinnslu Íslandsþara. Tilgangur áhættumatsins er að greina hættur á hönnunarstigi, meta áhættuna, hvort hún geti talist ásættanleg eða ekki og gera tillögur að mótvægisaðgerðum sem draga úr áhættu.

Markmið áhættumatsins var að auðkenna hættur í tengslum við sýru og annara efna í framleiðslunni. Nokkrar tillögur að úrbótum þarf að gera til að minnka hættuna. Með mótvægisaðgerðum eru hverfandi líkur taldar á óhappi sem getur valdið því að eitraðar gufur sleppi út í umhverfið með tilheyrandi hættu sem nái lengra en 50 metra radíus frá geymslusvæðinu sem er viðtekið hættusvæði ef t.d. sýruleki á sér stað. Aðrir áhættuþættir voru einnig skoðaðir og viðbrögð við þeim.

Hættuleg efni eru víða

Í fyrirhuguðu lífmassaveri Íslandsþara verða notuð hjálparefni í framleiðsluferlinu sem flokkast sem hættuleg efni samkvæmt reglugerð nr. 414/2014 um um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna. Flokkun efna byggist á hættueiginleikum þeirra hvort sem það eru eðliseiginleikar (t.d. eld- og sprengifimi, sýrustig, stöðugleiki) eða eiginleikar sem gera efnin skaðleg heilsu eða umhverfinu.

Öllum hættumerktum efnum fylgir öryggisblöð. Öryggisblöð eru upplýsingablöð þar sem fjallað er um m.a. hættur, forvarnir, geymslu efnanna og eðliseiginleika sem eiga við um viðkomandi efni. Á öryggisblöðunum koma fram upplýsingar um skilyrði sem ber að varast, stöðuleiki efnanna og ósamrýmanleika við önnur efni. Þessar upplýsingar nýtast svo við að meta áhættu við notkun og geymslu efnanna ásamt við hönnun á efnageymslum.

Efni sem flokkuð eru hættuleg eru allt umlykkjandi í okkar samfélagi. Á heimilum má finna fjöldann af efnum sem eru hættuleg og eru umbúðir slíkra efna merkt með rauðum tígli með hættumerki ásamt iðvörunarorðum, hættusetningum og varnaðarsetningum. Þetta eru t.d. ýmiskonar hreinsiefni, málning, lím, þynnir, leysiefni t.d. terpentína, lyf, rafhlöður, lakk, stíflueyðir, skordýraeitur, úðabrúsar, þynnir og viðhaldsefni fyrir bíla, t.d. frostlögur og olíuefni.

Eldsneyti (bensín, dísilolía, skipagasolía) er hættulegt efni og eru geymd í miklu magni á eldsneytisstöðvum og olíubirgðastöðum í okkar samfélagi. Eins eru töluverð umferða á olíubílum akandi um með tugþúsundra lítra af olíu til að fylla á eldsneytisstöðvar eða skip. Matvælafyrirtæki nota margvísleg hreinsisefni, sýrur og basa í sína framleiðslu og stærri iðnaðarfyrirtæki eru t.d. með mikið magn af alls konar efnum, eldsneyti og hjálparefnum.

Allt eru þetta efni sem eru flokkuð hættuleg og finnast víða í okkar samfélagi. Með því að benda á þetta er ég ekki að gera lítið úr þeirri hættu sem af efnum sem þessum getur stafað ef þau eru meðhöndluð vitlaust, heldur aðeins að vekja athygli á því að efnin sem hér um ræðir eru ekki einstök að neinu leyti.

Það er vert að taka fram að öll efni sem Íslandsþari mun nota í sinni framleiðslu eru algeng efni í matvæla- og lyfjavinnslu og iðnaði, á Ísland og erlendis. Mikil reynsla og þekking er til staðar á notkun, varðveislu og umgengni um þessi efni hér á landi.

Fjórar aðskildar efnageymslur

Þau efni sem verða notuð í vinnslu Íslandsþara og flokkast sem hættuleg samkvæmt áðurnefndri reglugerð eru:

•             Brennisteinssýra (96-98% conc.)

•             Vetnisperoxíð (35% lausn)

•             Natríumklórít (25% lausn)

•             Natríumkarbónat (99%)

Að auki verður notað efnið tetraasetýletýlendíamín (TAED) í framleiðsluferlinu sem flokkast ekki sem hættulegt efni skv. Áðurnefndri regulgerð. vinnslustað.Öll efnin eru stöðug við venjulegar aðstæður en svo eru einnig eru aðstæður sem þarf að varast og þær eru þekktar.

Engin ef þessum efnum eru eldfim og stafar ekki brunahætta af þeim einum og sér. Hins vegar þarf að geyma þau fjarri mögulegum eldfimum efnum, hitagjöfum og halda þeim aðgreindum. Því verða efnin geymd í sérhönnuðum eldvarnargeymslum þar sem komið verður í veg fyrir að ósamrýmanleg efni blandist saman fyrir slysni og til að verja þau fyrir eld og hita.

Efnageymslur verða hannaðar með það að markmiði að koma í veg fyrir að efnið skapi hættu fyrir starfsfólk og umhverfi ef leki kemur upp. Íslandsþari gerir ráð fyrir að hafa a.m.k. 4 aðskildar efnageymslur til að tryggja aðgreiningu þeirra frá ósamrýmanlegum efnum og hólfunar með eldvarnarveggjum ásamt viðeigandi slökkvikerfi.

Íslandsþari gerir ráð fyrir að þau efni sem eru á vökvaformi komi í 1000 L IBC tönkum (bambar) og þurrefnin í 25 kg sekkjum. Hins vegar er gert ráð fyrir að brennisteinssýran komi í annað hvort í IBC tönkum eða ISO tönkum (20-24 tonn) og sýrunni dælt inn í geymslutanka áður en hún er útþynnt í vatn í um 1-3% styrk. Móttaka á brennisteinssýru verður á aðskildu svæði með viðeigandi lekavörnum og þróm. Unnið verður eftir sérstökum verklagsreglum við móttöku og dælingu á brennisteinssýru.

Efnalisti og hugsanlega brunahætta

Vetnisperoxíð 35%

Vetnisperoxíð er mikið notað til sótthreinsunar, bæði hjá læknum, sjúkrahúsum og í sundlaugum hér á landi. Vetnisperoxíð er að öðru leyti víða notað til bleikingar á pappír og klæðum (textíl). Vetnisperoxíð hefur í miklum styrk (35%) talsverða oxandi verkan, sem er grundvöllur bleikningarhæfni efnisins. Efnið er „fullbrunnið“ þ.e. það mun ekki leggja neitt til elds sem eldsmatur. Það hefur hins vegar aukasúrefni sem mun losna við mikinn hita og þannig getur það valdið eldi aukinn kraft með sama hætti og ef súrefni andrúmsloftsins kemst að eldi. Það er því mikilvægt að geyma efnið fjarri öllum eldsmat og í vel loftræstu rými. Vetnisperoxíð verður geymt í sér efnageymslu.

Tetraacetylethylenediamine (TAED)

TAED er vel þekkt sem bleikinga hvati (Activator) þar sem það hvarfast við peroxíð við lágt hitastig og myndar perediksýru, sem hefur meiri þvottavirkni en peroxíð og TAED í sitthvoru lagi. Efnið er almennt talið skaðlaust og nær óbrennanlegt. Þetta er samt lífrænt efni sem getur brunnið ef það lendir í eldi og miklum hita. Öruggast er að geyma efnið fjarri öllum eldsmat og í vel loftræstu rými.

Natríumklórít 25% lausn

Natríumklórít er algengt efni til sótthreinsunar sundlauga og til bleikingar pappírs og textíla. Þetta er virkur oxari þ.e. skaffar kór til bleikingar og sótthreinsunar. Efnið hefur líka verið notað til illgresiseyðingar t.d. meðfram vegum og á göngustígum. Efnið er ekki eldfimt en skaffar súrefni til elds sem ekki hefur nægan aðgang að súrefni andrúmslofts, lendi efnið í miklum hita og eldi. Það er því mikilvægt að geyma efnið fjarri öllum eldsmat og í vel loftræstu rými, fjarri sýrum eins og brennisteinssýru, en blöndun þess við sýru getur valdið myndun á klórgasi. Natrímklórít verður geymt í sér efnageymslu fjarri brennisteinssýrunni.

Brennisteinssýra

Brennisteinssýra er algengasta ólífræna sýran sem notuð er í heiminum. Hún er óbrennanleg. Sýran er tærandi fyrir málma, einkum eftir að hafa verið þynnt með vatni. Það er því mikilvægt að geyma sýruna í lokuðu og vel loftræstu rými fjarri basa eins og þvottasóda og natríumklóríti, en blöndun sýru við natríumklórít getur valdið myndun á klórgasi. Brennisteinssýran verður geymd í sér efnageymslu og í sérhönnuðum tönkum með lekavörnum.

Natríumkarbónat eða Þvottasódi

Algengt efni á flestum heimilum. Basískt efni sem notað er til þvotta og eða til að afsýra (hlutleysa), þar sem sýra hefur verið notuð. Almennt talið nokkuð öruggt í meðhöndlun. Brennur ekki (full brennt efni). Geymist á þurrum stað, fjarri sýrum eins og brennisteinssýru.

Að lokum

Eins og hér hefur verið rakið er raunin sú að efnin sem hér um ræðir eru víða notuð í íslenskum iðnaði og framleiðslu. Um meðferð hættulegra efna gilda mjög skýrar og strangar reglur, sem Íslandþari mun að sjálfsögðu fylgja til hins ítrasta. Við höfum einnig látið framkvæma sérstakt áhættumat vegna efnanna og munum fara eftir þeim ábendingum sem þar komu fram til að minnka líkur á slysum.

Við höfum trú á því að vinnsla stórþara geti ekki aðeins verið arðbær, heldur einnig orðið að mikilvægum burðarstólpa í atvinnulífi á Norðurlandi til næstu ára og áratuga. Til að það geti orðið verður þarataka og -vinnsla að vera í sátt við umhverfið og samfélagið og að því stefnum við.

Íslandsþari ehf.

 


Athugasemdir

Nýjast