K.H.H.D

Hörður Finnbogason.
Hörður Finnbogason.

Áskorun hefur borist frá honum Stefáni Gunnarssyni um greinaskrif í Vikudag. Bæði Stebbi Gunn eins og ég kalla hann í daglegu máli og Júlli í Júllabúð eða Júlli frændi hafa skrifað pistla um aldur og visku í blaðinu og því ætla ég að halda áfram, er víst með allt aðra sýn á hlutina, enda mikið yngri en áður nefndir aðilar.

Mig langar að skrifa um skrítna tilfinningu sem örlað hefur á meir og meir eftir því sem aldurinn færist yfir. Það er stutt í að ég verði 41 árs. Mér finnst eins og það hafi verið í gær þegar foreldrar mínir urðu 45 ára og þá voru þau orðin mjög fullorðin. Í dag átta ég mig á því að það var röng ályktun og í dag skil ég bara ekkert í því hversu skyn mitt á aldur var rangt sem barn og reyndar allra barna enn í dag. Hér áður fyrr var allt svart eða hvítt, glasið var bara fullt eða tómt, annað hvort var Blur frábær hljómsveit eða ömurleg. Þið vitið hvað ég meina, það var allt svo ýkt þegar maður var yngri.

Ég hlæ oft af drengjunum okkar tveim þegar ég sé þessa takta, þegar himinn og jörð eru að farast út af einhverju sem skiptir ekki máli. En hvað breytist, afhverju er maður “hættur” eða segjum búin að minnka það að henda sér í gólfið og öskra yfir því að einhver slökkti á sjónvarpinu, eða líkja því við heimsendir að fara út með ruslið?  Það eru nokkrir mánuðir síðan ég tók meðvitaða ákvörðun um að lækka blóðþrýstinginn náttúrulega en ekki með lyfjum og til þess þarf æðruleysi, en það er annað orð yfir mátulegt kæruleysi eða “heilbrigða skynsemi” ég er í vegferð og mátti alveg við því, ég var á hraðri leið í K.H.H.D eða í réttri röð; kulnun, hjartastopp, Hveragerði, dauði.

Æðruleysi er eitt af uppáhalds orðunum mínum þessa dagana, ég hef alltaf vitað af því en aldrei spáð í því hvað það þýðir almennilega, og geri ekki enn í dag annað en að ég nota það yfir þann eiginleika sem ég er að þroska með mér að taka hlutunum eins og þeir eru án þess að láta það setjast á sálina. Ég á langt í land með að vera búin að ná fullkomnu valdi á þessum nýja eiginleika en ég reyni með öllum mætti. Mér líður eins og Loga Geimgengli að stúdera máttinn undir handleiðslu Joda. Þetta gengur hægt og rólega en er að komast nær og nær, í það minnsta farin að átta mig á því hvernig þessi nýji máttur getur aukið lífsgæði í mínu lífi og þeirra sem mig umgangast.

Það er jú þannig þegar öllu er á botninn hvolft að tíminn líður áfram, það kemur nótt eftir dag og veðrið er nánast alltaf ömurlegt, nema sumarið 2019 á suðvestur horninu. Þannig að viðbrögð okkar við hlutum sem við fáum ekki ráðið, munu ekki breyta gangi lífsins, ef einhver klessir á bílinn okkar þá skiptir ekki máli hvort við reiðumst eða hlæjum, það breytir ekki neinu, barasta engu. Það að eldast eru forréttindi sem ber að fagna og hvaða leið er betri til þess en að brosa með hjartanu og sigrast á K.H.H.D.

Ég skora á Hjalta Pál Þórarinsson að skrifa pistil fyrir okkur.

-Hörður Finnbogason


Nýjast