Kári í jötunmóð - í júlí

Myndina tók Hreinn Hjartarson fyrr í dag. Ekki í vetur alltsvo!
Myndina tók Hreinn Hjartarson fyrr í dag. Ekki í vetur alltsvo!

Það er ekki allt tekið út með veðursældinni eins og við Íslendingar ættum að vera farin að þekkja en gleymum jafnharðan og gula kvikindið blessar okkur með nærveru sinni.

Eftir sérstaklega dásamlegan júnímánuð þar sem sólin skein á okkur Norðlendinga svo til daglega með hitatölum sem hvaða heimsálfa sem er gæti verið stolt af; gerðust Norðlendingar vitaskuld afar grobbnir eins og þeim einum er lagið enda afleitt veður á sama tíma á suðvesturhorninu; það leiðist okkur hreint ekki neitt.

Þetta hefur nú komið aldeilis í bakið á okkur en júlí hefur heilsað okkur með sudda og brælu, kulda og hori. Já og stanslausri vætu sem sumstaðar er í föstu formi.

Meðfylgjandi mynd birti Hreinn Hjartarson á Facebook síðu sinni og gaf vefnum góðfúslegt leyfi til að endurbirta hana. Myndin er tekin í Grjóthálsi rétt ofan Húsavíkur og sýnir „Þjóðarblómið“ í júlívetrarbúningi. Nú þykir undirrituðum vera gengið of langt í að útrýma blessaðri lúpínunni.


Athugasemdir

Nýjast