Jöfnun eldsneytiskostnaðar í fjórða sinn

Anna Kolbrún Árnadóttir.
Anna Kolbrún Árnadóttir.

Það er ljóst að heimsfaraldurinn sem nú gengur yfir mun hafa gríðarleg áhrif á samfélagið í heild sinni. Það skiptir því öllu máli hvernig stjórnvöld veita viðspyrnu og hvernig stjórnvöld skapa aðstæður þannig að vel takist til þegar hægt verður að færa lífið í nokkurnvegin samt lag á ný. Fjölmargir aðilar velta fyrir sér möguleikum sem hafa komið fram, til dæmis hvernig hægt er að nýta tækifæri til þess að hugsa út fyrir suðvesturhornið, tækifæri sem snúa að því að nýta fleiri gáttir til og frá landinu.

Í þessu sambandi má benda á að nokkur fjöldi einstaklinga kemur til landsins með Norrænu á Seyðisfirði ásamt því að alþjóðaflugvellir eru á Egilsstöðum og á Akureyri og hefur reglulegt millilandaflug til og frá Akureyrarflugvelli skilað töluverðum fjármunum eða um einum milljarði inn í hagkerfið og það munar um minna.

Fyrir Alþingi liggur tillaga okkar þingmanna í Miðflokknum um að verð á eldsneyti í millilandaflugi verði jafnað þannig að eldsneytisverð til millalandaflugs verði það sama um allt land. Slík breyting mun stuðla að auknum tækifærum á landsbyggðinni og opna á fjölmarga möguleika, ekki aðeins vegna komu ferðamanna heldur einnig vegna vöruflutninga. Það merkilega er að þessi tillaga er nú flutt í fjórða sinn þar sem hún hefur ekki náð fram að ganga þrátt fyrir að stjórnvöld hafi sagt þetta nauðsynlegt til þess að nýta alla möguleika til viðspyrnu. Meira að segja var því haldið fram að tillagan væri óþörf þegar hún var lögð fram í annað sinn þar sem starfshópur á vegum sveitarstjórnar- og samgöngumálaráðherra væri að vinna að sömu tillögu og átti að skila niðurstöðu í lok árs 2018.

Það var því nokkuð ánægjulegt, allavega um stund að sjá á sl. þingi framkomið frumvarp sveitarstjórnar- og samgöngumálaráðherra um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, sem hefur þann tilgang að tryggja framboð og sambærilegt verð á olíuvörum sem ætlaðar eru til notkunar innan lands, óháð staðsetningu sölustaða olíuvara. En ánægjan varði ekki lengi þar sem þetta frumvarp nær ekki til jöfnunar eldsneytiskostnaðar vegna millilandaflugs á Egilsstöðum og Akureyri. En það hefði einmitt átt að taka það með núna og sérstaklega núna þegar við höfum tækifæri til þess að stokka spilin upp á nýtt. Vitað er að stækka þarf flugstöðina á Akureyri og gera þarf úrbætur á vellinum á Egilsstöðum og það fjármagn sem sett var fram til þeirra verka vegna faraldursins mun engan veginn duga, meira þarf til. Stjórnvöld verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að undirbúa grunninn, jöfnun eldsneytiskostnaðar skiptir öllu máli.

-Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi.


Nýjast