Í Ránargötunni var einlægt safnast saman við Bæjarhúsið númer sex

Ingólfur Sverrisson skrifar

Gamall Eyrarpúki

Í þá daga þegar tölvuleikir voru óþekktir, sjónvarp utan sjónmáls hér á landi og snjallsímar biðu þolinmóðir langt úti í framtíðinni urðum við krakkarnir á Eyrinni að beita hugmyndaflugi og samstöðu til að stytta okkur stundir með leik, ærslum og öðru því sem gerði lífið skemmtilegt.

 Yfir  

Í Ránargötunni var einlægt safnast saman við Bæjarhúsið númer sex enda var þar nægt pláss og hægt að hlaupa í kringum húsið því engar voru girðingar til trafala. Í fyrstu var hópnum skipt í tvennt, annar þeirra fór austur fyrir húsið en hinn áfram vestan við.  Litlum bolta var svo kastað yfir þak þessa tveggja hæða rishúss og þar með hófst hinn vinsæli leikur „Yfir.”  Síðan reyndu þeir sem voru hinum megin að grípa boltann þegar hann kom svífandi yfir þakið.  Ef það mistókst og boltinn datt á jörðina átti að kasta honum sömu leið til baka yfir þakið. Tækist einhverjum hins vegar að grípa boltann átti sá hinn sami að hlaupa yfir til hinna og kasta boltanum í sem flesta en þau reyndu á móti að forða sér með því að hlaupu á undan kringum húsið til að verða ekki fyrir boltanum og þurfa að fara í hitt liðið. Úr þessu gat orðið mikill hamagangur og þá var tíminn fljótur að líða.

Inn á milli tóku stelpurnar sig oft til og köstuðu boltum upp á veggina á nr. 6. Margar gátu haldið allt að fimm boltum á lofti í góða stund eins og ekkert væri. Þetta þótti okkur strákunum yfirgengileg snilld og horfðum hugfangnir á leiksystur okkar og spurðum okkur hvernig þær færu að þessu enda göldrum líkt. Ef þær buðu okkur að reyna líka eyddum við slíku tali og forðuðum okkur hið snarasta.

 Fallin spýta   

Þegar farið var í leikinn „fallin spýta” var einn úr hópnum valinn til að standa hjá trépriki sem stillt var upp við vegg og byrjaði á því að „grúfa” sem fólst í að halda fyrir augun og telja upp að tuttugu á meðan hinir krakkarnir földu sig. Þá hóf sá eða sú sem grúfði að leita hinna.  Þegar fyrsti var fundinn hlupu bæði að spýtunni góðu og ef sá sem leitaði varð á undan sagði hann „fallin spýta” og nefndi nafn þess sem fundinn var. Þar með varð sá úr leik og beið.  Þannig gekk leikurinn áfram þar til allir voru fundnir. Ef einhver þeirra sem fannst varð fljótari að fella spýtuna frelsaði hann alla hina og leikurinn byrjaði upp á nýtt og svo áfram þar til kallað var úr húsum að fara að koma okkur heim í háttinn enda orðið kvöldsett.

Fleiri leiki væri hægt að nefna eins og stórfiskaleik, að hlaupa í skarðið og svo ýmiskonar parísarleiki sem fóru fram á þeim fáu sléttu flötum sem fundust í þá daga.  Við upprifjun vaknar spurningin hvort leikir okkar um miðja síðustu öld þoli samanburð við þá sem nú tíðkast. Sjálfur vildi ykkar einlægur ekki fyrir nokkurn mun skipta á leikjunum sem við undum okkur vel við á Eyrinni til forna og því sem nú tíðkast.

Ingólfur Sverrisson

 


Athugasemdir

Nýjast