Heimurinn okkar er að brotna

Starkaður Björnsson. Mynd/Daníel Starrason.
Starkaður Björnsson. Mynd/Daníel Starrason.

Kæru fullorðnu Íslendingar.

Árið er 1760, iðnbyltingin er að hefjast í London. Fólk byrjar að nota vélar í staðinn fyrir handafl.  Vélar eru knúnar af kolum og öðrum mengandi efnum. En enginn vissi afleiðingarnar.

Förum þá fram til nútímans, hver er staðan í dag, árið 2019?

Staðan er ekki góð. En það versta er að mörgum hinna fullorðnu er eiginlega bara alveg sama! Við sáum það síðast í fréttum nýlega að orkumálaráðherra Bandaríkjanna vill fara að grafa eftir jarðgasi á norðurslóðum. Þótt áframhaldandi nýting jarðefnaeldsneytis myndi auka losun gróðurhúsalofttegunda helling, á sama tíma og vísindamenn segja að eina von okkar felist í að draga úr losun og stefna að kolefnishlutleysi. Þegar maður horfir á fréttir og hlustar á stjórnmálamenn og eigendur stórfyrirtækja, þá spyr maður: Lærum við aldrei neitt?

Þú gætir kannski hugsað núna: En við gerum helling, til dæmis eru markmiðin með Parísar samkomulaginu góð. En. Við erum hvergi nálægt því að uppfylla þau að óbreyttu. Sú þjóð sem mengar einna mest, Bandaríkin, hætti við og sagði sig frá Parísar samkomulaginnu (takk Trump). Kína og Indland eru eins og „villta austrið“ í losun mengandi efna og þegar við skoðum okkar eigið land, Ísland, erum við að mörgu leyti algjörir umhverfissóðar þegar kemur að alþjóðlegum samanburði. Til dæmis hvað við urðum mikið af sorpi.

Engan tíma má missa

Vísindamen segja að við höfum aðeins 13 ár til að bregðast róttækt við, annars gröfum við okkur eigin gröf. Viljum við það? Hamfarahlýnun er yfirvofandi, sá ferill er reyndar lengra kominn nú þegar en afneitunarsinnar viðurkenna og af því að sumir hafa hagsmuni af óbreyttu ástandi getur verið ansi erfitt að átta sig á réttu og röngu þegar kemur að umhverfismálum. Viljum við mannkynið taka sénsinn á að vísindin hafi rangt fyrir sér og enda í okkar eigin gröf? Ég segi mannkynið, því jörðin mun lifa mennina af, og hrista af sér mengunaróværuna með tíð og tíma – en við, börn þeirra kynslóða sem menguðu og menguðu, við sitjum uppi með ógreiddan reikning og mjög brothætta framtíð.

 Þetta reddast ekki neitt!

Ég heiti Starkaður, ég er 11 ára gamall og bý í brothættum heimi. Ég vil að mín kynslóð, fái eitthvað annað en ógreidda umhverfisreikninga beint framan í trýnin á okkur. Ég vil að við hækkum umhverfisverndarkröfur í átt að sjálfbærni, ég vil hvetja krakka sem og fullorðna að minnka plast og bensín/dísel notkun til dæmis . Endurnýta meira og nota hlutina okkar betur. Mér finnst að allt einnota plast ætti að vera allgjörlega bannað (nema undir mjög sérstökum kringumstæðum).  Við viljum nota vélar áfram til að létta okkur lífið eins og í upphafi iðnbyltingarinnar en það sem þarf að breytast er að orka vélanna verði umhverfisvæn í stað þess að stúta okkur öllum um síðir. Höfin eru að súrna, lífríkið hopar á hverjum degi, jöklarnir bráðna, lönd munu sökkva, veðrabreytingar verða æ hömlulausari og valda meiri og meiri skaða, en á sama tíma, standa fullorðnir og segja: Þetta er ekki mitt mál, þetta reddast!

Umhverfismál eru réttlætismál

Allir eiga rétt á góðri og heilnæmri framtíð. Við viljum ekki framtíðina sem fullorðið fólk hefur að óbreyttu upp á að bjóða. Ég held að ég tali fyrir alla jafnaldra mína þegar ég óska eftir réttlæti okkur til handa.

Þetta reddast nefnilega ekki af sjálfu sér. Ekki nema með róttækrum breytingum. Þær byrja innra með okkur og við krakkarnir þurfum rödd til að orð okkar heyrist.

Starkaður Björnsson

nemandi í 6. bekk, Brekkuskóla, Akureyri

netfang: bjornsson007@gmail.com

 

 


Athugasemdir

Nýjast