Heilsugæsla á Akureyri

Ingibjörg  Isaksen
Ingibjörg Isaksen

Á undanförnum árum hefur verið lögð sérstök áhersla á að efla og bæta aðgengi heilsugæslu á Akureyri sem og efla heilsugæslur á landinu öllu sem fyrsta viðkomustað. Breytingar hafa orðið á skipulagi heilsugæslna til að mæta einstaklingum með betri hætti en starf heimilislækna er fjölbreytt, samskiptafjöldi mikill og vinna utan dagvinnutíma töluverð.

Fjölgun heimilislækna

Aðgengi að fast skráðum heimilislækni, sem þekkir skjólstæðing sinn og sögu hans vel, hefur jákvæð áhrif á lífsgæði og ævilengd.

Rannsóknir hafa sýnt þá mörgu kosti við að einstaklingur hafi skráðan heimilislækni um lengri tíma. Það styttir biðtíma eftir viðtali, minnkar vinnuálag á heimilislæknum og í heilbrigðiskerfinu öllu ásamt því að fækka samskiptum utan dagvinnutíma og komum á síðdegis- og vaktmóttökur. Komum á bráðamóttökur sjúkrahúsa og innlögnum fækkar einnig auk þess að eftirfylgd með lyfjameðferð verður betri.[1]

Aðgengi að heimilislæknum á Akureyri hafði á undanförnum árum ekki verið nægilega gott en því hefur nú verið snúið við. HSN var lánsamt í sumar að fá til sín heilsugæslulæknanema, sem stytti bið eftir þjónustu umtalsvert. Einnig hafa breytingar á sérnámi í heimilislækningum orðið til þess að yfir 100 sérnámslæknar eru í sérnámi í dag og munu skila sér inn í kerfið jafnt og þétt á næstu árum. Framtíðin er því alls ekki eins svört og einhverjir vilja láta uppi.

Ég hef í gegnum tíðina verið ötull talsmaður þess að fjölga tækifærum fyrir heilbrigðismenntað fólk til þess að setjast að og starfa á landsbyggðinni. Það getur þó aldrei verið sjálfstætt markmið þegar kemur að skipulagningu þjónustu heldur þarf fyrst og fremst að horfa til aðgengis, gæða og þjónustu við notendur þar sem þeir eru í fyrsta sæti.

Ný heilsugæsla í Sunnuhlíð

Síðasta vetur var opnuð ný og glæsileg heilsugæslustöð á Akureyri í sérhönnuðu 1800 fermetra húsnæði og nú hefur Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, heimilað Heilbrigðisstofnun Norðurlands að taka um 250 fermetra húsnæði til leigu í Sunnuhlíð til að skapa enn meira rými fyrir starfsemina.

Það má með sanni segja að þessi nýja heilsugæsla hafi umbylt allri aðstöðu fyrir bæði starfsfólk og íbúa og verið lyftistöng fyrir svæðið. Með bættum húsnæðiskosti og stærri húsakynnum hefur verið mögulegt að færa ýmsa starfsemi sem rekin hefur verið í leiguhúsnæði annars staðar í bænum undir einn hatt, til bóta fyrir starfsfólk og þá sem þurfa að sækja sér þjónustu.

Þessu til viðbótar er rétt að geta þess að stefnt er að stækkun að Hvannarvöllum um 320 fermetra. Það má því segja að HSN sé með á leigu eða hafi í hyggju að leigja húsnæði sem samsvarar fyrirhugaðri suðurstöð en þegar heilsugæslustöð suður opnar þá verður starfsemin rekin frá tveimur starfsstöðum.

Áframhaldandi umbætur

Unnið er að því þessa dagana að koma nýrri heilsugæslustöð fyrir á lóð Sjúkrahússins á Akureyri, en klínískri þjónustu verður skipt jafnt á milli stöðvanna auk þess að heimahjúkrun og heimaþjónusta munu hafa aðstöðu í Suðurstöðinni. Ákvörðun um rekstrarfyrirkomulag þessara nýju stöðvar hefur ekki verið tekin, enda væri það ótímabært en samkvæmt lögum er Heilbrigðisstofnunar Norðurlands falið að skipuleggja og veita heilsugæsluþjónustu á svæðinu.

Eins og sést þá hefur markvisst verið unnið að því að bæta þjónustu við íbúa á svæðinu og áfram er unnið að því markmiði. Við erum hvergi nærri hætt og höldum ótrauð áfram með verkefnin sem liggja fyrir, enda eru sum þeirra löngu orðin tímabær.

Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis

[1] University of Cambridge, June 2, 2023: Having a „regular doctor“ can significantly reduce GP workload, study finds.


Athugasemdir

Nýjast