Háskólinn á Akureyri í lykilhlutverki

Hilda Jana Gísladóttir.
Hilda Jana Gísladóttir.

Í mínum huga var stofnun Háskólans á Akureyri ákaflega mikilvæg byggðaaðgerð í okkar landshluta, Norðurlandi eystra. Í grænbók um fjárveitingar til háskóla sem rædd var á bæjarstjórnarfundi á Akureyri í vikunni, kemur fram að hlutverk háskóla almennt sé þrískipt: kennsla, rannsóknir og samfélagslegt hlutverk. Menntunarbil landsbyggðanna og höfuðborgarsvæðisins er alvarleg staðreynd og til þess að breyta því skiptir Háskólinn á Akureyri verulegu máli.

Ritrýndar rannsóknarniðurstöður hafa sýnt fram á að nemendur sem geta stundað sitt nám í sinni heimabyggð eru mun líklegri til að starfa þar fimm árum eftir útskrift. Aðgangsstýring háskóla sem hefur það hlutverk að efla menntun á landsbyggðunum gengur ekki upp. Nemendur á landsbyggðunum standa höllum fæti í slíku umhverfi. Nauðsynlegt er fyrir háskóla að hafa grunnfjármögnun lykilstarfseminnar, rannsóknir og kennslu, tryggða.

Ég tel mikilvægt að hafa öflugan rannsókna- og vísindagarð við Háskólann á Akureyri. Landsbyggðirnar kalla á öfluga háskóla sem vinnur með nærsamfélaginu að framförum og vexti. Því er mikilvægt að hlúa vel að Háskólanum og fjármagn tryggt þannig að hann nái að sinna hlutverki sínu í því að efla háskólamenntun á landsbyggðunum. Þá þarf skólinn að geta vaxið með þarfir samfélagsins að leiðarljósi en ákall er um að tækni- og listnámi verði í boði í Háskólanum á Akureyri.

-Hilda Jana Gísladóttir,

bæjarfulltrúi (S) og formaður stjórnar samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE)


Athugasemdir

Nýjast