Hæglæti

Huld Hafliðadóttir.
Huld Hafliðadóttir.

Huld Hafliðadóttir skrifar


 

Ég er mikill aðdáandi hæglætis, þar sem ég veit fyrir víst að það að lifa hæglátu lífi hefur áhrif á lífsgæði, heilsu og líðan okkar mannfólksins. Einfaldara líf án stórra, og oft á tíðum óþarfa, streituvalda getur minnkað líkur á streitutengdum sjúkdómum og lífsstílssjúkdómum umtalsvert.

Það er því ansi kómískt til þess að hugsa að einhvern veginn næ ég alltaf að bæta örlítilli streitu við líf mitt, svona rétt þegar ég er að ná henni niður á einhverjum sviðum. Hálfpartinn eins og ég sé bara svolítið sjúk í streitu. Ég á það t.d. til að vera á síðustu stundu með verkefni, sem er jú sjálfskapað streituástand og tel mér þá trú um að ég vinni betur undir pressu. Sannleikurinn er sá að ég hef ekki alltaf prófað að vinna án pressunnar og því er erfitt að segja til um gæði útkomunnar.

Það að þessi pistill sé skrifaður tveimur tímum fyrir hið svokallaða "deadline" er afar lýsandi og hafa þessar þrjár vikur sem ég hafði til að skrifa því augljóslega farið í eitthvað allt annað. Til dæmis eyddi ég dágóðum tíma í að leita að tusku sem ég hafði haft í hendi nokkrum augnablikum áður, er ég var að gera litla gistiheimilið sem ég rek tilbúið fyrir gesti. Ég hafði takmarkaðan tíma til verkefnisins og var því töluvert að flýta mér. Uppfull af streitu og alls engu hæglæti náði ég að leggja tuskuna frá mér á einhvern stað, sem reyndist svo vera hvergi. Eins og eitthvað svarthol hefði gleypt hana. Ég gerði dauðaleit og á endanum krossaði ég fingur og vonaði að blaut tuskan væri ekki vafin inn í rúmfatnað hjá einhverjum gistihúsagestum.

Það var svo ekki fyrr en daginn eftir að ég átti leið í ísskápinn sem ég fann hana. Liggjandi í miðhillu ísskápsins, fyrir tilstuðlan algers streitu-óminnis. Ojæja, ég neita þó að gefast upp og held ótrauð áfram í átt að meira hæglæti.


Nýjast