Góð heilsa gulli betri

Þóra Guðný Baldursdóttir.
Þóra Guðný Baldursdóttir.

Janúar er liðinn, sólin farin að hækka á loft og flestir komnir í hversdag rútínuna sína. Af hverju löðumst við að því að hafa rútínu, jafnvægi í ójafnvæginu? Rútína krefst minni orku og við sköpum flæði yfir daginn. Ef flæðið er gott þá eru meiri líkur að við líðum mjúklega meðfram eða yfir mótstöðu sem verður á vegi okkar yfir daginn.

Flæði er orð sem er í upphaldi hjá mér. Í því felst frelsi, orka, aðlögun og áreynsluleysi. Úr hverju er þetta flæði gert? Það getur verið mjög einstaklingsbundið. Mitt flæði er m.a. gert úr vinnunni minni, heimilinu og fjölskyldunni, samskiptum, tíma til að hugsa og vera, næringu, hvíld, útivera, hreyfingu og áhugamálum eins og lestri og matseld.

Eins og margir af minni kynslóð ólst ég upp við fjölbreytta hreyfingu, útileikir, snúsnú og teygjó, skautar á KA vellinum, skíði í fjallinu eða heiðinni með fjölskyldunni, klifra í ljósastaurum og snúrustaurum, ganga eftir girðingum og svo framvegis.  Ég æfði ýmislegt eins og fimleika, fótbolta og blak. 

Í MA fyrir 30 árum kynnist ég svo  þríþraut og var aðaláskorun í því að læra að synda skriðsund almennilega. Einnig sökkti ég mér í jóga og fór á gönguskíði.  Já, þá var aðeins annar tíðarandi og var þetta  frekar framandi á þessum tíma. Þó svo að margt hafði verið gott í „denn“ þá mátti margt breytast. Ég fékk t.d. skammir frá tiltölulega ókunnu fólki þegar ég afþakkaði sælgæti eða mjólk. Var kölluð fáviti þar sem mér datt í hug að hlaupa úti á annan í páskum og fékk bank í hausinn í sundi frá manni því honum fannst tæknin hjá mér vera svo léleg.

Enn í dag er hreyfing mín núllstilling bæði andlega sem líkamlega.  Núna er ég meðal annars að æfa mig í því að hlaupa hægt, á lágum púlsi.  Það er partur af hlaupaþjálfun fyrir Laugavegsmaraþonið í sumar sem verður mitt annað hlaup þar sem ég tók þátt í því í fyrra.  Það er áskorun að hlaupa löturhægt og missa ekki kúlið þó aðrir hlaupa framúr þér en stundum þarf að taka hlutina á hæglætinu og muna að minna er stundum meira. 

Þegar nýjar uppbyggilegar heilsuvenjur eru settar inní rútínuna er oft gott og farsælt til lengri tíma að taka lítil skref. Máta það við rútínuna sína, sjá hvort það styrkir flæðið,  vera meðvitaður um hverjar eru líklegustu hindranirnar og hafa ráð við þeim og aðlaga þessa nýju venju við daglega flæðið.

Hreyfing er einn þáttur heilsugrunnsins (hreyfing, svefn, næring, félagsleg samvera og streitustjórnum)  og í vinnu minni legg ég áherslu að hreyfing sé hluti af þessu flæði, þessari daglegu rútínu.  Hún þarf ekki að vera flókin eða krefjast mikils búnaðar, aðalatriðið hvað hentar þér og þínu lífi.  Hvort sem það er að ganga, fara í sund, jóga, draga börnin sín á sleða, lyfta lóðum, dansa, fara á skíði þá er aðalatriðið að þetta sé reglubundið og gefi okkur aukna vellíðan og betri heilsu.  Einnig að það henti okkur á hverju lífsskeiði fyrir sig. Hreyfing á að vera forgangsmál því heilsan er forgangsmál.

Við  þurfum að passa okkur að detta ekki inní skorthugsun.  Hugsun um að við séum ekki nógu þetta eða hitt eða að við verðum að gera eitthvað ákveðið til að öðlast yfirborðslega hamingju.  Netmiðlar í dag eru stútfullir af áróðri sem ýta undir þessa skorthugsun og trufla okkur við það að finna innra með okkur hvað hvert og eitt okkar þurfum til að þrífast. 

Mikilvægur partur í því að vera trúr gildum sínum og venjubundnum athöfnum er að yfirstíga hindranir sem óhjákvæmilega verða á vegi okkar.  Það krefst hugrekkis og þrautseigju til að halda áfram jafnvel þó við séum að glíma við erfiðar tilfinningar, hugsanir eða líkamlegar þjáningar. Lífið er gjöf og það eru forréttindi að geta hreyft sig á hvaða máta sem er.  Við fáum bara einn líkama og því mikið í húfi að fara vel með hann.

Hvernig er þitt flæði?  Hvar liggur þín seigla og hvert er þitt stuðningsnet sem hjálpar þér að halda þér á réttri braut og í góðu flæði og við góða heilsu  í dagsins önn?  Leitum inná við og finnum svarið.

Að lokum, munum að góð heilsa krefst þess að henni sé sinnt og að lifa lengi er ekki endilega það sem fólk sækist eftir heldur að lifa góðu, nærandi og heilbrigðu lífi. Hjálpumst að við að sinna þeim þáttum sem viðhalda heilbrigði og góðri líðan á sem heildrænastan hátt bæði sem einstaklingar, fjölskylda og þjóðfélag. Ábyrgðin er okkar. 

Að síðustu vil ég skora Sigrúnu Heimisdóttur, sálfræðing að vera næsti áskorendapenni Vikublaðsins.

 

 


Nýjast