Frá Veiðifélagi Eyjafjarðarár

Það finnast glæsilegir fiskar í Eyjafjarðará sem veiðimönnum þykir gaman að takast á við og gefa svo…
Það finnast glæsilegir fiskar í Eyjafjarðará sem veiðimönnum þykir gaman að takast á við og gefa svo líf. Mynd úr safni
Vegna umræðu um bann við bleikjuveiðum af smábátum á Pollinum (ósar Eyjafjarðarár) vill Stjórn Veiðifélagsins koma eftirfarandi á framfæri:
 
Veiðifélagið hefur í umræðuþráðum legið undir ámæli um að vinna gegn hagsmunum yngri veiðimanna með umræddu banni en ef nánar er skoðað sést að það eru ósannindi.
Börnum er sannarlega heimilt að veiða án endurgjalds frá strönd á Pollinum enda hafi þau sótt sér veiðileyfi á heimasíðu árinnar, svokölluð sumarkort sem eins og áður segir kosta ekki neitt en eru nauðsynleg til að mega stunda veiðar á Pollinum. Þau geta svo loggað sig inn á síðuna á eftir og skráð alla veiði í rafræna veiðibók.
Þetta fyrirkomulag var sett í kjölfarið á því að Fiskistofa hótaði að loka ánni fyrir allri veiði nema stjórn Veiðifélagsins kæmi á ábyrgu veiðistjórnunarkerfi á Pollinum enda tilheyrir hann ósasvæði Eyjafjarðarár skv. ósamati frá 2002 (selta sjávar mæld of fl.) og ná ósarnir alla leið að Hallandssnesi. Þetta er því ekki einhver geðþótta ákvörðun veiðifélagsins heldur beinhörð fyrirmæli Fiskistofu sem við verðum að hlýða ellegar eiga það á hættu að ánni verði skellt í lás. Þetta verða menn að skilja til að geta tekið þátt í vitrænni umræðu um málefni Eyjafjarðarár.
Eins hefur veiðifélagið undanfarin ár boðið grunnskólabörnum að veiða frítt ásamt umsjónakennara þegar eftir því hefur verið leitað enda finnst okkur í stjórninni vera afar mikilvægt að leggja okkar að mörkum til að búa til áhugasama veiðimenn fyrir framtíðina. Það er því erfitt að taka því þegjandi þegar stjórn veiðifélagsins er vænd um að leggja stein í götu yngri kynslóðar veiðimanna þegar ekkert gæti verið fjær sanni.
Í fyrra kortlagði góður maður veiðar smábáta á bleikju á Pollinum fyrir Veiðifélagið og niðurstöðurnar voru sláandi.
Í heildina eru allt að 20-25 bátar hvers eigendur/notendur eru aktífir í þessari rányrkju á bleikju í ósum Eyjafjarðarár. Sóknardagarnir eru á bilinu 30-40 hjá þeim sem eru duglegastir og aflinn oft á bilinu 5-7 fiskar í hverri ferð og jafnvel farnar 2-3 ferðir á dag.
Sumir nota allt að 4 stangir í einu þar sem agn er dregið á eftir bátunum og siglt fram og til baka. Þeir kræfustu beittu netum óhikað. Veiðifélagið hefur undir höndum upplýsingar um alla þá báta sem nýttir voru í þessa iðju.
Það þarf engann ólympíufara í stærðfræði að sjá að þessar tölur eru gígantískar í stóra samhenginu og bornar saman við skráða veiði stangveiðimanna í ánni sjálfri.
Veiðifélagið gerir sér fulla grein fyrir því að það hangir fleira á spýtunni með hnignun bleikustofnins en þessar veiðar (hlýnun sjávar, malarnám og fl.) en við getum öll verið sammála um að þessar gengdarlausu veiðar af bátum í ósum Eyjafjarðarár, á Pollinum, spila verulega rullu í þessari framvindu. Allt tal um annað eru menn að tala gegn betri vitund, vilja bara "hafa þetta eins og þetta hefur alltaf verið" en það mun þá enda með því að bleikja á Pollinum og í Eyjafjarðará mun heyra sögunni til að verulegu eða öllu leyti.
Þá verða menn að spurja sig að því hvort þeim finnst það bara allt í lagi?

Athugasemdir

Nýjast