Er tími kattanna runninn upp?

Ragnar Sverrisson kaupmaður.
Ragnar Sverrisson kaupmaður.

„Samstjórn býður upp á meðvirkni eins og sjá má í ákvarðanatöku bæjarstjórnar,” segir Snorri Ásmundsson leiðtogi kattaframboðsins á Akureyri. Meðvirkni af þessu tagi leiðir gjarnan af sér skeytingarleysi gagnvart viðhorfum þeirra sem standa utan hópsins eins og þeir bæjarbúar þekkja vel sem undanfarið hafa reynt að koma athugasemdum á framfæri við það sem ákveðið hefur verið innan bæjarstjórnar án samráðs við almenning. Þannig hefur núverandi bæjarstjórn þóst þess umkomin að svara ekki enda þótt á hana sé yrt og heldur ekki þegar tilteknir bæjarfulltrúar eru beðnir að svara opinberlega mikilvægum spurningum. Þeir einfaldlega svara ekki - rétt eins og þeir séu yfir það hafnir. 

Nægir að nefna í því sambandi ítarlegar og málefnalegar fyrirspurnir frá Hildi Friðriksdóttur til Þórhalls Jónssonar um nýbyggingar við Tónatröð. Hann svaraði ekki einu orði.  Fyrirspurnir mínar til Höllu Bjarkar Reynisdóttur sem tengjast breytingum á miðbæjarskipulaginu.  Hún sá ekki ástæðu til að svara því kvaki. Fyrirspurnir og athugasemdir Árveigar Aradóttur um sömu breytingar – því var ekki ansað. Einnig má nefna þá staðreynd að nefnd undir forystu Hildar Jönu Gísladóttur lokaði sig af og gjörbreytti miðbæjarskipulaginu sem víðtæk sátt var um í bæjarstjórn árið 2014. Í því starfi var þess vandlega gætt að hafa ekki nokkurt einasta samráð við bæjarbúa hvað þá sérfræðinga á sviði bæjarskipulags.

Áfram væri hægt að greina frá áhugaleysi bæjarstjórnar síðustu árin að hafa raunhæft og eðlilegt samráð og samband við bæjarbúa. 

Svo var það á síðasta ári að Eva Hrund Einarsdóttir bæjarfulltrúi fékk þá hugljómun að reglur um útigöngu katta væri kjörið málefni til að taka ákvörðun um í góðri samvinnu við bæjarbúa.  Nokkrum mánuðum síðar var hún greinilega búin að gleyma öllu samráði við bæjarbúa og lagði einhliða til í bæjarstjórn þessa frægu tillögu um bann við útigöngu katta sem samþykkt var.  Síðan hefur bærinn okkar verið aðhlátursefni um land allt. 

Með hliðsjón af allri þessari meðvirkni í lokuðu bæjarkerfi er ekki að furða að nær þriðjungur kjósenda eigi erfitt með að gera upp hug sinn fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar. Ekkert samráð haft við bæjarbúa eins og sannarlega var gert fyrir nokkrum árum um mikilvæg málefni. Engin ástæða til að svara málefnalegum spurningum hvað þá að gera tilraun til að útskýra fyrir bæjarbúum afdrifaríkar ákvarðanir.  Svo er einn daginn talað um mikilvægi íbúalýðræðis en síðan teknar ákvarðanir bak við lokaðar dyr til þess að samstjórnin geti hangið áfram á horriminni í fullkominni meðvirkni.

 

Við þessar aðstæður þarf ekki að undra að margir kjósendur hugsi af fullri alvöru til kattaframboðsins á kosningadegi. 

 

Ragnar Sverrisson

 

 


Athugasemdir

Nýjast