Tónatröð magnað tækifæri fyrir Akureyri

Þórhallur Jónsson skrifar

Skipulagsráð samþykkti á fundi sínum þann 9.des 2020 að úthluta lóðunum við Tónatröð með öllum greiddum atkvæðum frá öllum flokkum með fyrirvara um að umsóknaraðilinn SS-Byggir mætti leggja fram hugmynd að uppbyggingu innan 2ja mánaða. Þá var SS-Byggi á sama fundi hafnað um lóðir við Austurbrú

og var lóðunum við Austurbrú og Hafnarstræti úthlutað með sömu fyrirvörum til annars aðila.
Á þessum tíma var verið að glíma við verulegan lóðaskort í bænum og Skipulagsráð var að bregðast við í góðri trú. Einbýlishúsalóðirnar í Tónatröð höfðu þá verið lausar í 11 ár og mátti byggja 3 hæðir með risi allt að 13,65m.

Oddviti Samfylkingarinnar óskaði eftir lögfræðiáliti sem leiddi í ljós að ekki hafi verið gert neitt rangt nema að bæjarstjórn þyrfti að samþykkja gjörninginn sem hún og gerði.

Þessu verkefni hefur verið fundið flest til foráttu, þarna átti ekki að vera hægt að byggja brekkan myndi ekki þola það, en jarðvegsrannsóknir segja að það er vel hægt að byggja í brekkunni. Umferðarþunginn yrði svo gígantískur að það væri ekki búandi í nágrenninu, umferðarkönnun sýndi fram á að það er ekki rétt.
Fullt að andmælum voru send inn mörg hver sem var smalað og fjöldinn allur af umsögnunum voru frá fólki sem býr ekki á Akureyri. Ætlum við virkilega að láta þennan fámenna hóp stjórna því hvort og hvernig við byggjum í Tónatröð.

Minjastofnun heimilar ekki flutning á Tónatröð 8 sem var keypt á sínum tíma til niðurrifs eins og fram hefur komið hjá eiganda húsins þar með þarf að sníða skipulagið að því. Að mínu mati væri nær að flytja húsið til norðurs en minjastofnun heimilar það ekki.

Ásýnd spítalabrekkunnar er fólki hjartfólgin þó aðeins sé um illa hirta njólabrekku að ræða og nú er búið að samþykkja á Alþingi að fara í viðbyggingu við Sjúkrahúsið sem kemur til með að breyta ásýndinni töluvert þarna fyrir ofan 3-4 hæða hús kemur til með að rísa þar.

Vandamál við þéttingu byggðar er það að það eru allir fylgjandi en bara ekki í sínum bakgarði, sem er ótrúlegt því við búum í bæ þar sem íbúar kvarta undan háum fasteignaskatti og ein besta leiðin til að lækka hann til framtíðar er að þétta byggðina og nýta betur innviðina í stað þess að breiða úr okkur.

Ég hef hitt mjög marga sem eru spenntir fyrir kaupa íbúð í Tónatröð og flest er það fólk sem býr í dag í einbýlishúsum í grennd við skóla og er 60 ára eða eldra. Með því að byggja á stöðum sem eldra fólk getur hugsað sér að búa losum við um eftirsóttar eignir fyrir barnafjölskyldur.

Vonandi klúðrum við ekki uppbyggingu þarna líkt og gert var á Eyrinni þar sem 7% bæjarbúa fengu sínum vilja framgengt.

Þórhallur Jónssons


Athugasemdir

Nýjast