Breyttir tímar - nýjar lausnir

Halla Björk Reynisdóttir
Halla Björk Reynisdóttir

Þegar ég tók fyrst sæti í bæjarstjórn á Akureyri árið 2010 kom mér skemmtilega á óvart hversu mikla samvinnu bæjarfulltrúar höfðu sín á milli og hversu mikla virðingu þeir sýndu skoðunum hvers annars. Það var einhvern veginn á skjön við þá mynd sem hafði verið dregin upp af störfum pólitískt kjörinna fulltrúa í fjölmiðlum.

Á þessu kjörtímabili hefur myndast mikið traust og gagnkvæm virðing á milli bæjarfulltrúa sem við nýtum nú til þess að gera róttækar breytingar. Við leggjum niður meiri- og minnihluta og vinnum sem ein sameinuð stjórn yfir þessu stóra fyrirtæki sem Akureyrarbær er. Þannig setjum við hagsmuni heildarinnar í forgang á krefjandi tímum.

Samvinna og samstaða í bæjarstjórn skapar vonandi fordæmi fyrir því hvernig allir íbúar sveitarfélagsins þurfa að standa saman sem ein heild til að leysa stór og mikilvæg verkefni.

Hvar er þá aðhaldið?

Einhver kann að spyrja sig hvort það aðhald sem minnihlutanum er ætlað að sýna meirihlutanum sé ekki þar með fyrir bí og málin afgreidd í þögn og lognmollu. Svo er auðvitað ekki. Hver og einn bæjarfulltrúi þarf eftir sem áður að rýna öll málefni til gagns og fylgja sannfæringu sinni.

Landslagið í bæjarstjórn Akureyrar er vissulega breytt en við byggjum eftir sem áður á trausti og virðingu til að ná góðum meirihluta um þau mismunandi mál sem þarf að leiða til lykta.

Af hverju nú?

Hugmyndin um samstarf allra flokka í bæjarstjórn Akureyrar er síður en svo ný af nálinni. Þennan möguleika bar á góma við síðustu kosningar og þetta kom aftur til tals fyrir um ári síðan. Það er þekkt að fólk taki höndum saman þegar á reynir og myndi breiða samstöðu gegn aðsteðjandi vanda.

Heimsfaraldur Covid-19 hefur sett okkur í erfiða stöðu sem þarf að takast á við. Við stöndum frammi fyrir efnahagslegum afleiðingum faraldursins, tekjufalli og auknum launakostnaði, og verðum að hugsa út fyrir boxið til að takast á við verkefnið með farsælum hætti. Þetta er síður en svo einfalt verkefni og einmitt þess vegna teljum við mikilvægt að ná breiðri samstöðu um verkefnin framundan.

Og hvað skal gera?

Ný bæjarstjórn Akureyrar hefur lagt fram samstarfssáttmála sem er um leið eins konar aðgerðaráætlun sem lýsir framtíðarsýn okkar og þeim verkefnum sem við blasa. Við ætlum okkur að snúa vörn í sókn og koma rekstri sveitarfélagsins aftur á réttan kjöl innan fimm ára en um leið verður staðinn vörður um viðkvæma hópa og hagsmunir barna og ungmenna ávallt hafðir að leiðarljósi.

Ráðast þarf í nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir sem felast meðal annars í því að fækka þeim fermetrum húsnæðis sem sveitarfélagið hefur til umráða, endurskoða laun bæjarfulltrúa og æðstu stjórnenda, nota starfsmannaveltu til að fækka starfsfólki, meta hvaða ólögbundnu verkefnum má hætta, einfalda stjórnsýslu, sameina svið, minnka ferðakostnað og efla rafræna þjónustu, svo fátt eitt sé nefnt.

Að lokum

Þeim breytingum á bæjarstjórn sem tilkynnt var um síðastliðinn þriðjudag hefur víðast hvar verið tekið af opnum huga og jákvæðni. Breytingarnar bera vott um talsverða djörfung en um leið trú á að með breiðri samstöðu getum við tekist á við nánast hvaða vanda sem er.

Við gerum okkur fulla grein fyrir að samstarfið verður á köflum snúið og eflaust mun þurfa að leysa úr ýmsum hnökrum. Við leggjum hins vegar af stað í þessa vegferð full bjartsýni um að þessi leið sé sú rétta fyrir bæinn okkar. Ég trúi því að ekki sé nauðsynlegt að gera allt eins og það hefur alltaf verið gert. Það þarf stundum að hafa kjark til þess að prófa nýjar leiðir. Ég óska okkur öllum til hamingju með nýju bæjarstjórnina okkar.

-Halla Björk Reynisdóttir. Höfundur er forseti bæjarstjórnar á Akureyri


Athugasemdir

Nýjast