Bakþankar: Hefðirnar

Huld Hafliðadóttir
Huld Hafliðadóttir

Jólunum 1999 eyddi ég í Þýskalandi sem skiptinemi. Ég var vön ýmsum jólahefðum að heiman, m.a. að borða rjúpur á aðfangadag, kalt hangikjöt á jóladag og hamborgarahrygg á gamlárs. Meðlætið var náttúrlega sér kapítuli og ekki mátti hrófla við neinu.

Það var því töluvert sjokk þegar ég áttaði mig á því mánuði fyrir jól að ekki var búið að ákveða jólamatinn! Hvernig jólum átti ég eiginlega von á?
Úr varð að skiptinemadóttirin frá Íslandi bauðst til að elda íslenskt hangikjöt með jafningi (uppstúf), laufabrauði og tilheyrandi.
Hangikjötið kom tímanlega með póstinum og mér tókst stóráfallalaust að sjóða það á Þorláksmessu. ORA grænu baunirnar voru hins vegar stóri höfuðverkurinn. Ég þræddi stórmarkaðina, á milli þess sem ég útskýrði fyrir fósturmömmu minni mikilvægi þess að hafa baunirnar niðursoðnar. Hún varð vandræðaleg, vildi greinilega ekki særa þessa ungu sál sem sá ekki fram á jólin án niðursoðnu baunanna. "Huld mín, nú til dags borðum við baunirnar ferskar.. í versta falli frosnar. Það hefur ekki tíðkast í áratugi að borða niðursoðnar baunir."

Hvað var konan að segja! Ferskar baunir með hangikjötinu? Nei, nei, nei. Niðursoðnar skyldu þær vera. Á endanum fann ég baunirnir. Símtal við pabba á aðfangadag með nákvæmum leiðbeiningum í sósugerðinni skilaði árangri í annarri tilraun, fyrir utan þó að jafningurinn var orðinn kaldur þegar kom að borðhaldi. Í öllu stressinu hafði laufabrauðið gleymst í öðru húsi. Karteflurnar heppnuðust sem betur fer.

Minnisstæðast frá þessu aðfangadagskvöldi er líklega svipurinn á fóstursystur minni, sem var grænmetisæta, þegar kom að því að borða jólamatinn. Kalt kjöt, karteflur, hvít og sæt hveitisósa ásamt niðursoðnum baunum úr dós.

Það fallega við skiptinemaárið mitt er að lærdómurinn kemur stundum síðar. Og stundum löngu síðar. Þannig hef ég hringsnúist úr stranghefðunum yfir í að ákveða c.a. mánuði fyrir jól hvað eigi að vera í jólamatinn.


Athugasemdir

Nýjast