Áróðurinn gegn nagladekkjum

Hjörleifur Hallgríms
Hjörleifur Hallgríms

Tvær greinar birtust nýlega annars vegar í Vikudegi og hins vegar í Fréttablaðinu eftir fólk sem er á móti nagladekkjum. Önnur eftir dósent við HA, Yvonne Höller, sem gengur svo langt að mælast til að banna eigi nagladekk og setja strangari reglur um útblástur frá bílum vegna svifryks og telur þetta geta valdið lungnakrabbameini.

Hún skýrir frá rannsóknum, sem sýni að styrkur agna í andrúmsloftinu PM 10 og PM 2,5 hafi aukist hratt á undanförnum árum í iðnvæddum ríkjum og fari jafnvel upp fyrir 10ug/m3. Það er nú bara fyrir sprenglært háskólafólk að lesa í þessar tölur og við mig, sem er BARA með mín vélstjóraréttindi væri betra að tala um mótorreikning. Ágæta Yvonne og aðrir, sem vilja banna nagladekk, verða þá að benda á sambærilegar lausnir því t.d. sérfræðingur í dekkjum sem ég ræddi við sagði mér að raunar kæmi ekkert í staðinn fyrir nagladekk við hin ýmsu akstursskilyrði á vetrum. En svo ég víki að vágestinum krabbameini geri ég ekki lítið úr varnaðarorðum í því sambandi því sjálfur missti ég báða foreldra mína úr þeirri vá og hef sjálfur ekki farið varhluta af því þó ég virðist kominn yfir það. 

Í hinu tilfellinu var það grein eftir virtan arkitekt, Magnús Skúlason í Fréttablaðinu, sem finnur nagladekkjum flest til foráttu og ekki síst að nagladekk fari illa með götur bæði á Akureyri og Reykjavík og tekur, sem dæmi: „Maður, sem býr uppi á Brekkunni á Akureyri og hefur aldrei notað nagladekk líkti notkun þeirra við að ganga daglega í gúmmístígvélum ef skyldi rigna þann daginn. (Hvernig finnst mönnum samlíkingin?) Magnús nefnir einnig og bendir á notkun loftbólu, harðkorna- og harðskeljadekk en hælir þó mest dekkjum með iðnaðardemöntum. En aftur verð ég að vitna í dekkjasérfræðinginn, sem sagði að ekkert kæmi í staðinn fyrir nagladekk.

Ég bjó í Reykjavík í þó nokkur ár og keyrði þar aldrei á nagladekkjum og eftir að heim kom til Akureyrar hélt ég uppteknum hætti. Það leið ekki á löngu að fyrsta veturinn eftir heimkomuna eyðilagði ég bílinn minn í árekstri einmitt á Brekkunni í Oddeyrargötunni því ónegldu dekkin svöruðu ekki bremsunum í hálkunni og ég var ekki í stígvélum.

Vikudagur birti fyrir skömmu grein eftir mig þar, sem ég vitnaði breskar rannsóknir í sambandi við svifryk af völdum bílaumferðar og þar kom óyggjandi fram að nagladekk voru ekki mesta vandamálið heldur útblástur frá bílum og þá sérstaklega ryk frá bremsuklossum og bremsuborðum ásamt dekkjunum sjálfum. Ekki vildi ég verða fyrir bílum sérstaklega ef þeir kæmu ofan frá Brekkunni, bremsulausir. Það er margs að gæta en hjá ýmsum eru nagladekk fordæmd eins og loftlagsvitleysan.

-Hjörleifur Hallgríms


Nýjast