Ákall úr Kúagötu

Þetta er Oddeyrargatan okkar upp úr 1930, ein fallegasta íbúagata Akureyrar þori ég að fullyrða. Fyrir tíma götunnar voru hér beitarlönd ofan við byggðina en sagt er að kýr smábænda á Oddeyri hafi markað götustæði Oddeyrargötunnar þegar þær voru reknar á beit á túnunum þar sem nú er Helgamagrastræti og Þórunnarstræti. Oddeyrargatan fékk þannig viðurnefnið Kúagata. Brekkugata, sem skarast neðst við Oddeyrargötuna, var áður þjóðvegurinn inn í bæinn úr norðri. Skemmtilegir tímar án efa.
 
Síðan þessi mynd var tekin hefur mikið vatn runnið til sjávar og ófáar kýr gengið til mjalta. Árið 1930, þegar myndin er tekin, voru um 600 skráðar bifreiðar á Íslandi - í dag, árið 2022, eru um 24.000 bifreiðar skráðar í umferð, bara á Akureyri! Oddeyargatan okkar fagra ber þess glöggt merki að gamli kjarninn á Akureyri þarfnast uppfærslu, hann einfaldlega tekur ekki við þessum mikla fjölda bifreiða, hvað þá þeim aukna fjölda sem mun fylgja fjölgun íbúa næstu árin. Ein birtingarmynd þess að hér þurfi að grípa til róttækra aðgerða er sem dæmi að um þröngu íbúagötuna okkar aka um 80% ökumanna yfir löglegum 30 km/klst hámarkshraða og þeir sem hraðast aka aka hér á yfir 80 km/klst. Umferðinni er einfaldlega hleypt óhindrað í gegn af stofnbrautum bæjarins, óáreitt. Á annasömum degi sýna mælingar að þúsundir bíla þrusa hér í gegn á 40 km/klst meðalhraða. Hreint sturlaðar staðreyndir!
 
Nú er lag fyrir Akureyrarbær (þf) að grípa strax til aðgerða og uppfæra gatnakerfið þannig að umferðarþunginn beinist ekki í gegnum þröngar íbúagötur bæjarins líkt og Oddeyrargötuna heldur þannig að hún haldi sig að fullu á þartilgerðum stofnbrautum. Við viljum einfaldlega að Oddeyrargatan okkar verði færð aftur í fyrra horf þannig að hún þjóni íbúum sínum fyrst og síðast og að gangandi vegfarendur, börnin okkar og ykkar, geti átt hér leið um ósködduð. Á þeim forsendum átti akandi umferð leið um þegar myndin var tekin. Þannig var sáttmálinn.
 
Þarna er klárlega komið eitt helsta kosningamálið í næstu sveitarstjórnarkosningum! 
 
Bestu kveðjur úr Kúagötu!
Aðalsteinn Svan Hjelm

Athugasemdir

Nýjast