Á miðaldra, hreyfióða vagninum og er að fíla það

Áskorandapenninn

Eitt kvöldið vafraði ég um miðlana eins og oft áður, þeir voru uppfullir af fréttum um nýjan VIP næturkúbb í Reykjavík, partý í skútum og kynmök á búbbluhóteli og ég varð skyndilega ótrúlega þakklát fyrir að vera bara á miðaldra vagninum þar sem allir keppast um að vera úti að leika í náttúrunni. Þakklát fyrir að í mínu ungdæmi voru ekki til neinir áhrifavaldar eða nettröll, engir samfélagsmiðlar og aðalumhugsunarefnið var hvort það yrði sveitaball í Víkurröst eða Ýdölum um komandi helgi.

Þegar kom að klæðnaði voru hlutirnir einfaldir: Svartur Metallicu bolur, Levis gallabuxur, hermannaklossar og notaður leddari úr Spútnik. Fyrirmyndirnar bjuggu út í heimi og sáust helst í tónlistarmyndböndum ef þú varst svo heppin að vera fyrir framan sjónvarpið þegar þau voru sýnd eða á myndum í Bravó.

Nú eru fyrirmyndirnar mun sýnilegri og selja okkur hugmyndir um það hvernig við eigum að líta út og hvers við eigum að neyta allan liðlangan daginn. Áhugaverður heimur fyrir mig sem kennara í markaðsfræðum en þar sem ég vinn með ungu fólki alla daga þá hræðist ég þennan heim líka og þau áhrif sem hann hefur á þau.

En aftur að miðaldra, hreyfióða vagninum sem nú sýnist svo einfaldur og þægilegur. Þegar við hjónin vöknum þessa dagana þá hefst rekistefna um hreyfingu dagsins: fjallahjól, götuhjól, fjallganga, brautarskíði eða utanbrautarskíði. Ég geri grín að manninum mínum og kalla hann Garðbæinginn þegar hann er kominn í götuhjólaspandexið. Hvert fóru rokkararnir?

Ég hef alltaf átt erfitt með að sætta mig við að vera eins og allir hinir og hoppa ekki svo glatt á það vinsælasta í hvert skiptið. Ég fór ekki upp að gosinu fyrr en í lok maí því ég ætlaði ekki að vera eins og allir hinir, ég ætlaði aldrei á Facebook, var lengi með gerviaðgang í nafni hundsins okkar, og vissar húsbúnaðarvörur munu ekki fá að koma inn á mitt heimili.

Aldrei aftur mun ég reyna að koma því að að ég hafi stundað gönguskíði og fjallgöngur síðan elstu menn muna og sé sko ekkert að elta æðið. Kannski er bara fínt að vera pínu hallærislegur og elta æðið sem grípur okkur miðaldra fólk og jú ég keyri um á Mitsubishi Outlander. Ég ætla meira að segja að ganga svo langt að auglýsa eftir hópi af fólki sem langar að hjóla saman á órafmögnuðum fjallahjólum um fjöll og firnindi (samt aðallega dali). Tek það samt skýrt fram að ég ætla ekki að fá mér rafmagnshjól á næstunni en þarf líklega að éta það ofan í mig eins og svo margt annað.

Skora á vin minn Axel Grettisson, oddvita Hörgársveitar til margra ára, til að taka við pennanum.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir


Athugasemdir

Nýjast