Á flugi í samgöngumálum

Líneik Anna.
Líneik Anna.

Ný samgönguáætlun ber þess glöggt merki að við erum komin á gott skrið með að greiða niður innviðaskuldina í vegakerfinu eftir hrunið og þar er stórauknu fjármagni varið til vegagerðar.

Samgönguáætlun var samþykkt á vorþingi og nú er uppfærð áætlun lögð fram í þinginu. Stærsti munurinn er sá að nýframkvæmdum sem nema um 214 milljörðum króna er flýtt frá fyrri áætlun, í kjölfar umfjöllunar umhverfis- og samgöngunefndar og áherslu Alþingis um mikilvægi þess. Með þessu er verið að stíga stærri skref en áður hefur tíðkast. Á landsbyggðinni er ætlunin að flýta framkvæmdum um 125 milljarða. Samgöngusáttmáli ríkis og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er birtingarmynd sameiginlegrar sýnar og heildarhugsunar fyrir fjölbreyttar samgöngur á svæðinu og er liður í því að leysa ríkjandi og fyrirsjálanlegan umferðarvanda. Þá er lagt upp með samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila um stór afmörkuð verkefni. lina

Skýr stefna um uppbyggingu flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum

Það eru líka stigin stór skref í fluginu. Flugstefna hefur verið mótuð  í fyrsta sinn í 100 ára sögu flugsins. Lykilatriðið í henni er að millilanda- og varaflugvellirnir verða á einni hendi, Isavia sem á að taka ábyrgð á varaflugvöllunum. 

Notendur millilandaflugvalla verða að taka þátt í rekstri varaflugvalla fyrir millilandafarþega. Uppbygging varaflugvalla á Íslandi er mikilvægt flugöryggismál fyrir þá sem fljúga um Keflavíkurflugvöll, s.s. þegar aðstæður breytast skyndilega vegna veðurs eða óhappa. Þörfin fyrir framkvæmdir og þjónustu miðast við að skapa aðstöðu til að taka við nægum fjölda véla í neyðarástandi.

Nú er stigið stórt skref í átt að bættum rekstri og uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli. Frá og með áramótum tekur Isavia við rekstri hans og þá skapast svigrúm strax á næsta ári til aukins viðhalds á öðrum flugvöllum. Framkvæmdir eru orðnar aðkallandi víða og of lítið fjármagn fer í flugvelli sem eru mikilvægir innviðir.

Það er mörkuð skýr stefna um að byggja flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum upp sem alþjóðlegar fluggáttir, samhliða varaflugvallahlutverkinu. Við 2. umræðu fjárlaga var samþykkt breytingartillaga um að leigja eða kaupa húsnæði til stækkunar á flugstöðinni á Akureyrarflugvelli, sannarlega mikilvægt skref og staðfesting á vilja samgönguyfirvalda.

Samvinna er lykill að árangri

Öflugt innlandsflug er mikilvægt byggðamál og einn lykillinn að jafnræði byggðanna. Samhliða bættu viðhaldi á flugvöllum landsins þarf að jafna aðstöðumun landsmanna. Skoska leiðin er mikilvægt skref í þá átt. Flugfargjöld eru há í samanburði við það sem býðst í millilandaflugi, tíðni flugferða er ekki alltaf hentug og sætanýting breytileg. Greiðsluþátttaka stjórnvalda hefur reynst vel til að mæta þessum vanda í Skotlandi og er ætlunin að hrinda henni í framkvæmd hér á landi seinni hluta næsta árs. 

Næsta skref varðandi Akureyarflugvöll er að útfæra leiðir til að nýta fjárlagaheimildina um stækkun flugstöðvarinnar og útfæra rekstur hennar þannig að hann nýtist byggðunum og markmiðum stjórnvalda um nýja gátt inn í landið. Breið samvinna er lykill að árangri í þeim efnum.

Að lokum: Isavia verður ekki einkavætt á meðan Framsóknarflokkurinn stendur vaktina í samgöngumálum.   Áfram veginn.

-Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins í NA og nefndarmaður í Umhverfis- og samgöngunefnd

 


Athugasemdir

Nýjast