Þingeyskir hálfvitar og leiðindapakk úr Skagafirði

Nei, þetta er ekki þessir ömurlegu Álftagerðisbræður!
Nei, þetta er ekki þessir ömurlegu Álftagerðisbræður!

 

Stórtenórinn, Skagfirðingurinn og Álftagerðisbróðirinn Óskar Pétursson, skemmti eitt sinn á 1. maí hátíðarhöldum á Húsavík. Þar kom einnig fram  gleðisöngvasveit heimamanna, Ljótu hálfvitarnir. Óskar, sem oft hefur sungið í bænun með bræðrum sínum og jafnan verið vel tekið, mætti á svæðið ásamt og með undirleikara og varð hálf hvumsa við þegar dyravörður vatt sér að þeim og spurði höstuglega: „Eruð þið ljótu hálfvitarnir?“

Það kom fát á Óskar við þessa spurningu, jafnvel þó hann væri vel meðvitaður um álit flestra Þingeyinga á Skagfirðingum. En hann kvaðst ekki hafa móðgast verulega, enda hefði hann sem strákur í Álftagerði oft verið ávarpaður: „Þú ert nú ljóti hálfvitinn!“

Frá þessu greindi Óskar þegar hann heilsaði  hátíðargestum á baráttudegi verkalýðsins á Húsavík.

Þegar svo þingeyska súpersexsveitin Ljótu hálfvitarnir steig á svið á eftir Óskari, hafði talsmaður þeirra, Keldhverfingurinn Sævar Sigurgeirsson, svipaða sögu að segja og Óskar: „Þegar við hálfvitarnir mættum á svæðið, tók á móti okkur maður sem spurði með þjósti: „Eruð þið þessir ömurlegu Álftagerðisbræður?“ JS

 


Athugasemdir

Nýjast