Þegar Arnar Björns gerði díl aldarinnar!

Arnar Björnsson af Reykjaheiðarveginum, sendiherra Húsavíkur í suðurvegi. Mynd: JS
Arnar Björnsson af Reykjaheiðarveginum, sendiherra Húsavíkur í suðurvegi. Mynd: JS

Rólyndismaðurinn og enska sjentilmennið Roy Phillips, stofnaði á sínum tíma fyrirtækið Mynd hf á Húsavík, sem annaðist framköllun og myndvinnslu af ýmsu tagi. Framkvæmdastjóri var ráðinn kempan Arnar Björnsson, síðar hinn landsþekkti og langbesti íþróttafréttamaður landsins.

Arnar er hugmyndaríkur atorkumaður eins og þeir vita sem til hans þekkja, en átti það til á yngri árum að vera nokkuð skjótráður og stundum úr hófi fram.

Eitt sinn kom viðskiptavinur í Mynd hf og var að leita hófanna um framleiðslu á jólakortum sem átti að selja til styrktar Þóroddsstaðakirkju í Kinn. Arnar tók að venju vel á móti kúnna og átti við hann samningaviðræður um magn og verð um stund. Og kom síðan að spjalli yfirstöðnu blaðskellandi og himinlifandi inn til félaga síns og hrópaði: „Roy, nú hljóp aldeilis á snærið hjá okkur, því ég var að gera díl aldarinnar!“

Roy tók þessari yfirlýsingu með ró, eins og öllu öðru. En vildi auðvitað fá að vita í hverju þessi fádæma díll væri fólginn. „Jú, sjáðu til, maðurinn vildi láta okkur búa til 250 kort, en þegar ég sagði honum að stykkið kostaði 25 kall, þá þótti honum það nokkuð dýrt og virtist tregur. Þannig að ég hjólaði í kallinn og tókst að fullvissa hann um að í stað þess að kaupa 250 kort fyrir þessi jól, þá ætti hann að hugsa til framtíðar, miklu gáfulegra væri að fjárfesta í jólakortum til margra ára og þá gæti ég boðið honum upp á verulegan magnafslátt. Nú, bjálfinn lét sannfærast og ég samdi um að við prentuðum 2000 kort á tíkall stykkið! Og ef þetta er ekki díll aldarinnar, ja, þá veit ég ekki hvað á að kalla það.“ Sagði Arnar í sigurvímu.

„Jaaá, ég veit það nú eiginlega ekki heldur. Varstu nokkuð búinn að gleyma því Arnar minn, að það kostar okkur 17 krónur að prenta kortið? Þannig að við þurfum að borga 7 krónur með hverju korti af þessum 2000, sem sagt 14.000 króna tap á   þessum díl aldarinnar,“

Sagði Roy Phillips, sallarólegur að vanda. JS


Athugasemdir

Nýjast