Seljum skotleyfi á helvítis bakpokalýðinn!

Birgir Steingrímsson t.v. ásamt laxa-, hákarla og raunar allra fiska veiðimanninum Helga Héðinssyni.…
Birgir Steingrímsson t.v. ásamt laxa-, hákarla og raunar allra fiska veiðimanninum Helga Héðinssyni. Mynd: JS

Á atvinnumálaráðstefnu á Húsavík var mikið rætt um hvernig mest og best væri hægt að græða á erlendum ferðamönnum. Birgir Steingrímsson, Bibbi í Hlyn, taldi mikilvægt að reyna að draga hingað ameríska auðkýfinga í stórum stíl en sveitungi hans, Sigurður Gunnarsson í Ytri-Hlíð kvað ameríska auðjöfra upp til hópa vera viðsjárverða gallagripi.

Birgir taldi manngildi þessara manna litlu skipta út frá arðsemissjónarmiði. Það væri nefnilega hægt að selja þeim veiðileyfi á uppsprengdu verði, ekki aðeins í lax, heldur einnig skotleyfi á gæsir, svartfugl, rjúpur, seli og fleiri skepnur. Hann sagði að það væri nauðsynlegt að reyna að hagnast á erlendum auðmönnum því landið væri löðrandi af bláfátækum bakpokalýð sem ekki skildi  eftir sig krónu í þjóðarbúinu.

Í framhaldi af þessum umræðum þeirra félaga lagði einn fundarmanna fram eftirfarandi tillögu sem lesin var upp, en reyndar ekki borin undir atkvæði: “Atvinnumálaráðstefna Þingeyinga samþykkir að selja amerískum auðkýfingum veiðileyfi til að elta uppi og skjóta blásnauðan bakpokalýð sem ekki er hægt að hagnast verulega á með öðrum hætti.”  JS


Athugasemdir

Nýjast