Örlygur Hnefill stórgræddi á að leggja á borð fyrir Paul McCartney!

Paul McCartney mætti ekki í Lauga – En Örlygur Hnefill júníor tapaði ekki á því! Mynd: Ekki JS.
Paul McCartney mætti ekki í Lauga – En Örlygur Hnefill júníor tapaði ekki á því! Mynd: Ekki JS.

Fyrir fáum misserum komst sá kvittur á kreik að sjálfur séra Paul McCartney væri staddur í Þingeyjarsýslu, fyrst og fremst til að fara í hvalaskoðun frá Húsavík, en Páll var og er  annálaður hvalavinur. Allt var þetta nú heldur óljóst, en fjölmiðlar syðra hringdu uppstyttulaust norður og spurðu hvort heimamenn ættu von á eða hefðu jafnvel þegar séð Bítilinn.

Þetta sumar starfaði hinn ungi og afar hugmyndaríki Örlygur Hnefill Valgerðarson og Örlygs, sem þjónn á sumarhótelinu á Laugum í Reykjadal. Hann hafði eins og aðrir, heyrt ávæning af meintum faraldsfæti heimsstjörnunnar í sýslunni. Og til þess að hafa nú vaðið fyrir neðan sig, ef svo ólíklega vildi til að...dekkaði hann borð í matsalnum á Laugum og plantaði á það stóreflis merkimiða, á hverjum stóð: „Reserved for mister Paul McCartney and company.“  Eða upp á íslensku: „Frátekið fyrir Pál og fylgdarlið.“

McCartney lét reyndar ekki sjá sig á Laugum eða annarsstaðar í Þingeyjarsýslu, en ku hafa stungið inn skammvinnu nefi í Perlunni í Reykjavíkurhreppi á þessum tíma.

En ekki hafði þó til einskis verið unnið á Laugum. Því þjónninn Örlygur sagði að stöðugur straumur erlendra gesta hefði farið fram á að fá að setjast við borðið sem merkt var McCartney til að láta mynda sig þar með frátökuskiltið í forgrunni.

„Þeir greiddu mér ómælt þjórfé fyrir viðvikið, pöntuðu svo allir mat og sátu vongóðir um komu kappans lengi dags. Þannig að trixið virkaði fullkomlega.“

Sagði hinn brögðótti markaðsmaður, Örlygur júníor. JS


Athugasemdir

Nýjast