Óli Kristins: Meintur húsvískur bílaþjófur í borginni

Óli Kristins t.v. ásamt öðrum eðal Húsvíkingi, Magnúsi Andréssyni. Mynd: Hafþór Hreiðars.
Óli Kristins t.v. ásamt öðrum eðal Húsvíkingi, Magnúsi Andréssyni. Mynd: Hafþór Hreiðars.

 

Óli Kristinsson, kaupmaður á Húsavík, átti erindi í höfuðborgina og flaug þangað með herkjum og harmkvælum, enda enginn flugfíkill að upplagi. Suður kominn þurfti Óli ýmislegt að erinda og hafði því gert ráðstafanir til að verða sér úti um bifreið í borginni. Kunningi hans hafði annast þau mál, leigt bílaleigubíl, rauðan Subaru. „Ég skil hann eftir fyrir utan Loftleiðahótelið og lyklarnir verða undir mottunni,“ voru skilaboðin frá kunningjanum.

En áður en Óli náði í bílinn, tók hann strætó frá flugvellinum niður í miðbæ, fór að sjálfsögðu  í frímerkjabúð og verslaði töluvert þar og víðar og var því klyfjaður pökkum og pinklum þegar hann tók leigubíl að Loftleiðahótelinu. Hann fann rauða Subarúinn strax, bíllinn var opinn eins og um var talað og Óli skutlaði pökkum og frímerkjamöppum í aftursætið. Hinsvegar gekk bölvanlega  að finna lykilinn undir mottunni.

Óli moldvarpaðist á fjórum fótum með nefið undir bílmottunum um skeið, en án árangurs. Skyndilega er gripið þéttingsfast í öxlina á honum, hann rifinn út úr bílnum með offorsi af heljarmiklum og heldur illúðlegum Reykjavíkurdrelli sem spurði með þjósti: „Hvern fjandann þykist þú eiginlega vera að gera hér, þokkapiltur?“

Óli stundi upp að hann væri nú bara að leita að bíllyklunum.  „Þú finnur þá ekki þarna karlinn, því þeir eru nefnilega í vasa mínum.“ Sagði reykvíski ruddinn.

Við þessi orðaskipti fór aðeins að týra á skarinu hjá Óla. Hér var vissulega rauður Subaru, bara ekki réttur rauður Subaru. Eftir nokkrar útskýringar féllst eigandi bílsins á að hér væri aðeins smá misskilningur í gangi og að Óli væri ekki sá rummungs bílaþjófur sem flest benti til í upphafi. Tókust með þeim sættir, bíleigandinn aðstoðaði Óla við að finna réttan bíl þar sem lykill var undir mottu og allt í þessu fína. Kvöddust þeir félagar að svo búnu af gagnkvæmri vinsemd og virðingu.

Óli settist nú undir stýrið á réttum rauðum bíl og var harla hróðugur yfir að hafa komið sér út úr þessum ógöngum með nokkurn veginn óskert mannorð. En. Hann hafði ekki lengi ekið, þegar hann áttaði sig á  að hann hafði skilið alla pakka og poka og pinkla eftir í aftursætinu á vitlausa bílnum!

Nú voru góð ráð dýr. Ekki gat Óli farið að rúnta um Reykjavíkursvæðið og stoppa alla rauða Subarúa, það gæti orðið nokkuð snúið mál. En þá datt honum í hug það snjallræði að snúa aftur á upphafsreit. Og það gerði hann, ók að Lofleiðahótelinu, og viti menn, rangi bílinn var enn á sínum stað. Í þetta skiptið reyndar læðupokaðist Óli að bílnum eins og þjófur að nóttu, hugðist ná í allt sitt hafurtask svo lítið bæri á og forða sér svo hið snarasta af vettvangi. Og hefði gert það, ef helvítis bíllinn hefði nú ekki verið læstur - af einhverjum ástæðum!

Eftir nokkurt japl, jaml, fuður og flandur, tókst Óla að hafa upp á góðkunningja sínum bíleigandanum, sem dratthalaðist með honum að þeim rauða, opnaði og Óli endurheimti þar með allt sitt góss og var harla kátur með eigin frammistöðu í þeirri flóknu og erfiðu stöðu sem upp var komin.

Kvöddust þeir kumpánar í annað sinn og óskaði bíleigandinn Óla góðs gengis í lífsins ólgusjó, en spurði svo að endingu: „Segðu mér félagi, hver ert þú eiginlega??“

Óli gaf sér góðan tíma áður en hann svaraði: „Ég? Ja, ég er nú bara bæjarstjórinn á Húsavík!“

Sem betur fer þurfti Bjarni Aðalgeirsson, þáverandi bæjarstjóri, aldrei að líða fyrir þetta snjalla svar Óla Kristins.

Sem að sjálfsögðu sagði  sjálfur þessa sögu og dró ekkert undan. JS

 


Athugasemdir

Nýjast