Júlli – Fyrsti og eini þingeyski geimfarinn

Júlíus Ívarsson á Mærudögum í sínum gamla heimabæ, þar sem hann sveif um loftin blá fyrir margt löng…
Júlíus Ívarsson á Mærudögum í sínum gamla heimabæ, þar sem hann sveif um loftin blá fyrir margt löngu. Mynd: JS

Hinn hugmyndaríki ungi atorkumaður, Örlygur Hnefill Örlygsson, setti upp fyrir nokkrum árum í Safnahúsinu á Húsavík sýninguna Geimfarar í Þingeyjarsýslu. Hún fjallaði einkum um bandaríska geimfara sem voru við æfingar í grennd við Öskju á síðustu öld í tengslum við tilvonandi tunglferðir sem nokkrir þeirra fóru síðar í.

Þetta var einkar merkileg sýning. En kom ýmsum á óvart að þar var hvergi getið um eina þingeyska geimfarann í sögunni og raunar eina Íslendinginn sem borið hefur nafnbótina  geimfari frá unga aldri, en sá er Húsvíkingurinn Júlíus Ívarsson.

Kempan Júlli fór reyndar aldrei til tunglsins eins og Armstrong og þeir bræður, en hann sveif vissulega um loftin blá og reyndar fremur niður en upp. Þegar hann var strákur á Húsavík árið 1967, fór hann  mikla flugferð á reiðhjóli fram af klettunum við gömlu sorpeyðingarstöðina, sveif rúma 20 metra niður í fjöru, slapp nánast ómeiddur og komst heim af sjálfsdáðum og á báðum fótum jafn löngum.

En eftir flugið mikla, var snáðinn æfinlega nefndur Júlli geimfari á Húsavík og gengur raunar enn undir því heiti meðal bæjarbúa á líku reki, þó Júlli sé löngu fluttur úr bænum og kominn yfir sextugt. JS


Athugasemdir

Nýjast