„Flestum hentar það best að fara mestan part ófullir í gegnum lífið“

Indriði Indriðason á 100 ára afmæli sínu. Mynd: JS
Indriði Indriðason á 100 ára afmæli sínu. Mynd: JS

 

 Indriði Indriðason ættfræðingur var um árabil æðsti embættismaður Stórstúku Íslands, en umgekkst jafnframt á langri ævi marga helstu listamenn þjóðarinnar sem sumir voru ölkærir úr hófi fram. Þegar Indriði varð 100 ára birtist viðtal við hann í Skarpi á Húsavík og hann þar  m.a. spurður um áfengi, bindindi og listamenn. Og hinn aldargamli meistari var skýr og skorinorðum þar um, en um leið algjörlega öfgalaus:

“Ég smakkaði áfengi á sínum tíma eins og flestir, en hef aldrei notað það í óhófi. En ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að mér og flestum öðrum, henti það betur að fara mestan part ófullir í gegnum lífið.

Sumum listamönnum sem ég þekkti reyndist það  nokkuð erfitt hvað þeir voru fúsir að kíkja svona heldur djúpt ofan í glasið. Þessi hegðun rithöfunda og annarra listamanna er hinsvegar öðrum þræði skiljanleg. Þetta eru oft miklir tilfinninga- og heilabrotamenn og slíkum er oft gjarnt að halla sér að einhverju sem þeir telja að örvi og tendri þessar skapandi tilfinningar.

Og staðreyndin er í raun sú að á vissu stigi við drykkju, en það stig kemur reyndar mjög snemma, þá finna sumir og með réttu, að hæfilegur smáskammtur víns getur örvað listamanninn til að sjá hlutina í skýrara ljósi og eykur hugmyndaflæði umfram það sem gerist daglega og að óbreyttu. En það hryggilega er auðvitað að menn halda að þessi hughrif aukist enn frekar með því að fá sér í annað glas og svo koll af kolli og þá er náttúrlega fjandinn laus.

En vissulega getur smáögn mjaðar eða víns á réttri stund og stað kallað fram eitthvað sem annars verður ekki höndlað. Og um þetta hafa margir listamenn vitnað.”

Sagði Indriði á 100 ára afmælinu. JS


Athugasemdir

Nýjast