Að stjórna konungum: „Hey king, move man!“

Þorgeir Baldursson – konunglegur myndasmiður.
Þorgeir Baldursson – konunglegur myndasmiður.

Af og til var Sigurður Pétur Björnsson, sem sé Silli bankastjóri, fréttaritari og ljósmyndari Morgunblaðsins á Húsavík í 46 ár, gagnrýndur fyrir að vera ýtinn og jafnvel úr hófi fram þegar hann var að reyna að ná sem bestum fréttamyndum. Og Silli svaraði þessum kárínum sem sá fagmaður sem hann var og sagði: „Í framtíðinni er það aðeins ljósmyndin sem tekin var og gæði hennar sem máli skiptir og það verður ekki spurt um hvernig sá sem tók myndina hagaði sér við myndatökuna.“

Mun yngri myndasmiður en einnig frá Húsavík, Þorgeir Baldursson, hefur um árabil fylgt þessari fótógrafísku fílósófíu Silla út í ystu æsar. Hann hefur til að mynda náð mörgum mögnuðum myndum af hljómsveitum á sviði og þurft að þola kvartanir sveitarlima fyrir að væflast  á sviðinu jafnvel lengur en hljómsveitin á tón- og dansleikjum.

Eitt sinni voru sænsku konungshjónin, Karl Gústav og Sylvía, á yfirreið um Norðurland og litu meðal annars inn í Verkmenntaskólann á Akureyri. Íslensku forsetahjónin voru með í för og fjölmiðlar fylgdu tignarfólkinu hvert fótmál, bæði íslenskir og sænskir.

Í þjóðhöfðingjaheimsóknum af þessu tagi gilda allskonar hefðir og etíkettur sem fjölmiðlafólk þarf að gangast undir. En Þorgeir Baldursson, sjómaður og ljósmyndari frá Húsavík, var ekki verulega meðvitaður um þessar hefðir og að auki undir áhrifum frá Silla bankastjóra. Þannig að þegar konungs- og forsetahjón stilltu sér upp til myndatöku í Verkmenntaskólanum, var Karl kóngur að mati Þorgeirs ekki nógu nálægur hinum þremur til að hægt væri að ná brúklegri hópmynd. Þannig að Þorgeir steig bara  fram í höfðingjahópinn, ýtti þéttingsfast á síðubarðið á Svíakóngi og sagði: „Hey king, move man!“

Og Karl Gústav hrökklaðist að sjálfsögðu í forundran  undan þrýstingi Þorgeirs þétt upp að hlið Dorritar. Og kóngur hafði víst aldrei áður upplifað aðrar eins trakteringar hjá ljósmyndurum heimsins á löngum og farsælum fyrirsætuferli.

Og sagan segir að það hafi aðeins munað hársbreidd að lífverðir kóngs hafi ekki skotið Þorgeir á staðnum þegar hann stökk fram til að færa til kónginn. JS


Nýjast