Í tilefni af 40 ára afmæli Zontaklúbbsins Þórunnar hyrnu fer fram afmælishóf og listaverkauppboð í Deiglunni, Listagilinu, laugardaginn 5. október, kl. 15:00.
Í hófinu verður Helena Eyjólfsdóttir, stofnfélagi klúbbsins, heiðruð. Stiklað verður á stóru í sögu klúbbsins og í kjölfarið verður haldið listaverkauppboðið LIST STYÐUR LIST, undir stjórn Villa vandræðaskálds. Þá verður boðið upp á tónlistaratriði og léttar veitingar.
Deiglan opnar kl 14.00 með forsýningu á listaverkunum, en dagskrá hefst kl. 15.00.
Í tilkynningu segir að hugmyndin að uppboðinu hafi verið listaverkagjöf til klúbbsins. Allur ágóði af uppboðinu rennur í sjóð til að styðja konur til listnáms og/eða listsköpunar. Verkefnið og styrktarsjóðurinn fékk nafnið LIST STYÐUR LIST.
Listaverkin eru til sýnis á facebook og instagram, þar sem áhugasamir geta boðið í verkin. Heitið á síðunni á facebook þar sem listaverkin eru til sýnis er: Listaverkauppboð Zontaklúbbsins Þórunnar hyrnu. Í október verður auglýst eftir umsóknum um styrki og fer úthlutun fram í tengslum við 16 daga átak Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi sem stendur frá 25. nóvember til 10. desember n.k.
Zontahreyfingin vinnur að því að bæta stöðu og lífsgæði kvenna hvar sem er í heiminum, bæði á eigin vegum og í samstarfi við stofnanir Sameinuðu þjóðanna og frjáls félagasamtök. Zonta leggur sérstaka áherslu á valdeflingu ungra stúlkna og kvenna m.a. með því að styðja þær til náms og veita þeim þannig brautargengi til aukinna tækifæra og áhrifa í samfélaginu.
Zontaklúbbar vinna að þessum markmiðum með því að safna fjármunum sem renna bæði til verkefna innanlands og utan. Dæmi um innlend styrktarverkefni Zontaklúbbsins Þórunnar hyrnu eru: Aflið/Samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, Bjarmahlíð/miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, Kvennaathvarfið, Rauði krossinn og Velferðarsjóður Eyjafjarðar. Ennfremur hefur klúbburinn styrkt einstæðar mæður til sumardvalar með börnum sínum.