Yfir 10 þúsund gestir á MATUR-INN 2007

Talið er að yfir 10 þúsund manns hafi lagt leið sína á sýninguna MATUR-INN 2007 sem haldin var í Verkmenntaskólanum á Akureyri um helgina. Sýningin var helguð norðlenskum mat og matarmenningu en fyrir henni stóð félagið Matur úr héraði - Local Food og tóku um 60 norðlenskir sýnendur þátt. Sýning undir sama nafni var haldin fyrir tveimur árum en bæði sýnendafjöldi og aðsókn var tvöfalt meiri í ár. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, opnaði sýninguna formlega á laugardag og lýsti yfir mikilli ánægju með það sem fyrir augu hans bar á sýningarsvæðinu.  Ýmsar keppnir og viðburðir fóru fram samhliða sýningunni og vöktu mikla athygli sýningargesta. Júlíus Júlíusson, talsmaður sýningarinnar og stjórnarmaður í félaginu Matur úr héraði, sagði menn í skýjunum með hvernig til tókst. Aldrei áður hafi jafn margir norðlenskir aðilar sem koma að mat og matarmenningu komið saman í einum viðburði. Allir hafi lagst á eitt að gera sýninguna sem veglegasta og faglegasta og mátti heyra glögglega á sýningargestum að þeim fannst mikið til koma. Nánar verður fjallað um sýninguna í máli og myndum í Vikudegi nk. fimmtudag.

Nýjast