28. febrúar, 2008 - 12:56
Hafist hefur verið handa við gerð stefnumótunaráætlunar fyrir ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum. Að vinnunni standa
Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Ferðamálasetur Íslands og Rannsóknarstofnun ferðamála á Nýja Sjálandi.
Stefnumótunin byggir á reynslu og vinnu sérfræðinga frá Kanada og Nýja Sjálandi. Þeir sem að verkinu vinna eru: dr. John Hull,
sérfræðingur við Ferðamálasetur Íslands og Rannsóknastofnun ferðamála á Nýja Sjálandi, dr. Edward H. Huijbens,
forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands, Simon Milne, forstöðumaður Rannsóknastofnunar ferðamála á Nýja Sjálandi og
Carol Patterson, ferðaþjónusturáðgjafi í Kanada og leiðbeinandi við háskólann í Calgary.
Auk þeirra fjögurra koma að verkinu fjöldi stúdenta og starfsmenn stofnananna sem standa á bak við stefnumótunina. Markmið stefnumótunarinnar
er að greina möguleika til uppbyggingar á ferðaþjónustu til framtíðar, út frá úttekt á því sem
svæðið hefur upp á að bjóða. Úttektin, sem unnin er í samvinnu við lykil hagsmunaaðila og þá sem þekkja vel til á
svæðinu, er síðan er borin undir aðra hagsmunaaðila í ferðaþjónustu og þarfir hennar til framtíðar greindar með þeim
hætti. Allir hagsmunaaðilar munu einnig koma að vinnunni á tveggja daga námskeiði og hugarflugsfundi um stefnumótun á svæðinu sem haldinn
verður í byrjun maí. Úttektin er unnin af íslenskum sérfræðingum í málefnum ferðaþjónustu í samvinnu við
lykilaðila en greining og kortavinna er í höndum erlendra sérfræðinga og byggir á þeirra vinnu á ýmsum svæðum hvaðanæva
úr heiminum. Í sameiningu munu síðan rannsakendur og hagsmunaaðilar vinna stefnumótun til fimm ára, en áætlað er að vinnan verði
endurtekin að þeim tíma liðnum. Landfræðilegum upplýsingakerfum (GIS) er beitt við úttekt og greiningu á ferðaþjónustu
í Þingeyjarsýslum. Gögnum um einstaka staði, s.s. fossa, byggðaminjar, sundlaugar, veitingastaði og vegaslóða, er safnað í aðgreindar
þekjur sem nýtast til að átta sig á þyrpingum ólíkra möguleika til uppbyggingar í framtíðinni. Með þessari
aðferð er þáttað saman nálgunum fræðimanna og hagsmunum atvinnugreinarinnar á máta sem er auðframsetjanlegur í kortum og myndum en
jafnframt nýtist til frekari greininga. Sá landfræðilegi upplýsingagrunnur sem byggður verður upp í Þingeyjarsýslum mun nýtast sem
fyrirmynd í sambærilega gagnaöflun og stefnumótunarvinnu á öðrum landssvæðum og getur að lokum orðið undirstaða
landnýtingaráætlunar fyrir íslenska ferðaþjónustu, segir á vef Ferðamálastofu.