Víkingar mörðu sigur gegn Jötnum

SA Jötnar stóðu heldur betur í SA Víkingum í Akureyrarslagnum á Íslandsmóti karla í íshokkí kvöld í Skautahöll Akureyrar. Leiknum lauk með sigri SA Víkinga, 4:3. SA Jötnar komust í þrjú núll með tveimur mörkum frá Stefáni Hrafnssyni og einu frá Helga Gunnlaugssyni. Víkingar náðu að minnka muninn með marki frá Andra Mikaelssyni og staðan 3:1 eftir fyrstu lotu.

 

Eitt mark var skorað í annarri lotu og það gerði Gunnar Darri Sigurðsson fyrir Víkinga. Andri Mikaelsson var svo aftur á ferðinni fyrir Víkinga er hann jafnaði metin í 3:3 snemma í þriðju lotu. Það reyndist eina markið í þeirri lotu og því þurfti að framlengja.

Það tók Víkinga ekki nema um þrjátíu sekúndur að skora sigurmarkið í framlengingunni og það gerði Jóhann Már Leifsson.

 

Með sigrinum eru SA Víkingar komnir með 32 stig og hafa fimm stiga forskot á SR, sem tapaði gegn Birninum í kvöld, 5:6, í Egilshöllinni. SA Jötnar hafa 17 stig í þriðja sæti.

Nýjast