Verður jafnt og spennandi einvígi

Úrslitaeinvígi Akureyrar og FH um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta karla hefst í kvöld en liðin mætast í Höllinni á Akureyri kl. 19:30 í fyrsta leik liðanna. Vinna þarf þrjá leik til þess að landa titlinum og munu liðin skiptast á að leika á heimavelli. Vikudagur fékk Rúnar Sigtryggsson, fyrrum landsliðsmann og fyrrum þjálfara Akureyrar, til þess að rýna í úrslitarimmuna. Hann reiknar með spennandi og jöfnu einvígi og telur markvörsluna geta skipt sköpum.

„Þetta eru tvö bestu liðin í vetur og því reikna ég með að þetta verði mjög jafnir leikir. Munurinn á liðunum er kannski það sem menn hafa verið að tala um í vetur að FH hafi sterkari leikmannahóp en hins vegar hafa Akureyringar betri markmann,” segir Rúnar.Hann segir Sveinbjörn Pétursson markvörð Akureyrar vera lykilmann í liði norðanmanna og mikið muni mæða á honum í leikjunum.

„Helsti styrkleiki Akureyrar er markvarslan. Það er nánast hægt að telja á fingrum annarar handar hvenær Sveinbjörn hafi ekki náð í kringum 20 skotum varin í leik. Hann er líka mjög fljótur í að koma boltanum í leik og þá koma hraðaupphlaup. Þetta er svona helsta stærðargráða Akureyrarliðsins. FH-ingar hafa hins vegar öflugar skyttur í sínu liði og það er eitthvað sem liðsmenn Akureyrar verða að stoppa. Skot utan af velli er helsti styrkleiki FH-inga og það er þannig í dag að þeir eru nánast eina liðið á landinu sem hefur fleiri en einn leikmann sem getur skotið af miklum krafti af níu metrunum. Þarna liggur vopn Hafnfirðinga í þessu einvígi.

Hins vegar held ég að markvarslan gæti komið í bakið á þeim, hún hefur verið frekar slök hjá þeim í vetur. Manni sýnist samt að FH hafi verið stöðugri í sinni spilamennsku eftir áramót heldur en Akureyri. Það hefur verið meiri stígandi í þeirra spilamennsku en það er sama skapi kannski ekki við öðru að búast þar sem Akureyri tapaði ekki leik fyrir áramót. Það er vegna þessa að maður heyrir að fleiri reikni með sigri FH í þessari baráttu,” segir Rúnar. Sjálfur telur hann Sveinbjörn í marki Akureyrar geta ráðið úrslitum í einvíginu.

„Þetta eru jöfn lið en ef Sveinbjörn ver eins og hann hefur gert í vetur að þá held ég að Akureyri klári þetta. Ég á von á að allir leikir verði hörkuleikir og bæði lið munu spila hraðan handbolta. Ég get ekki séð að hvorugt liðið ætli að fara að draga eitthvað úr hraðanum vegna þess að það hentar hvorugu liðinu að spila hægar. Því er von á hröðum og skemmtilegum handbolta í þessu einvígi,” segir Rúnar Sigtryggsson.

Nýjast